[sam_zone id=1]

Flott frammistaða hjá U17 liðum Íslands

Karla- og kvennalið Íslands í flokki U17 taka þessa dagana þátt í Norðurlandamóti sem haldið er í Ikast, Danmörku.

Bæði lið lögðu af stað til Danmerkur í morgunsárið síðasta sunnudag og hófst mótið í gær, mánudag. Samantekt um hópinn, leikmenn og starfsmenn, má finna með því að smella hér. Stelpurnar riðu á vaðið og léku fyrsta leik mótsins gegn Noregi. Sá leikur fór alla leið í oddahrinu en Noregur vann 3-2 eftir æsispennandi leik.

Strákarnir léku sinn fyrsta leik rétt á eftir stelpunum og mættu þeir liði Færeyja. Leikurinn var nokkuð spennandi en íslensku strákarnir höfðu þó 3-0 sigur. Bæði lið áttu tvo leiki á mánudeginum og mættu stelpurnar Færeyjum en strákarnir Danmörku. Bæði lið stóðu sig vel en máttu sætta sig við 3-1 töp.

Í dag voru það aftur stelpurnar sem hófu leik en þær mættu Grænlendingum klukkan 9 á staðartíma. Íslensku stelpurnar sýndu mikla yfirburði í leiknum og unnu auðveldan 3-0 sigur. Liðið endar þar með í 3. sæti síns riðils og mætir Englandi í útsláttarkeppninni sem hefst á morgun. Efstu lið hvors riðils fara beint í undanúrslit mótsins en annað og þriðja sæti mætast í kross og sigurvegararnir mæta efstu liðum riðlanna í undanúrslitaleikjunum.

Strákarnir mættu Englendinum í dag og úr varð skemmtilegur og spennandi leikur. Úrslitin réðust í oddahrinu þar sem að íslensku strákarnir voru sterkari og unnu 3-2 sigur. Þeir hafa því unnið tvo af þremur leikjum sínum en karlamegin er einn sex liða riðill í stað tveggja riðla. Á morgun eiga strákarnir því tvo síðustu leiki sína í riðlinum en þeir mæta sterkum liðum Svíþjóðar og Noregs.

Image may contain: 15 people, people smiling, people playing sport and basketball court
Liðsmyndir fengnar af Facebook-síðu mótsins.

Leikurinn hjá stelpunum hefst klukkan 10:00 á íslenskum tíma en strákarnir mæta Noregi klukkan 11:00 og Svíþjóð klukkan 15:00. Leikir mótsins eru sýndir á Volley TV, sjónvarpsstöð danska blaksambandsins, og má nálgast síðuna með því að smella hér. Leikið er á tveimur völlum samtímis og eru beinar útsendingar frá þeim báðum. Útsendingarnar hafa hingað til verið til mikillar fyrirmyndar.

Líkt og síðustu ár sendir BLÍ dómara á mótið og að þessu sinni er það Jón Ólafur Valdimarsson, alþjóðadómari, sem dæmir á mótinu fyrir Íslands hönd.