[sam_zone id=1]

Afturelding með góðan sigur á HK

Afturelding tók á móti HK í Mizunodeild kvenna í kvöld.

Bæði lið höfðu unnið einn leik í upphafi tímabils en HK hafði þó einnig tapað einum. Afturelding vann eina leik sinn til þessa sem var gegn Álftanesi. Í tilefni bleika dagsins lék Afturelding í bleikum búningum í kvöld og auk þess rann ágóði miðasölu til Bleiku slaufunnar.

Í fyrstu hrinu leiksins var jafnt til að byrja með en um miðja hrinu fór Afturelding á ótrúlegt skrið. Í stöðunni 9-11 fyrir HK settu heimakonur í lás og skoruðu 10 stig í röð. Staðan var þar með orðin 19-11 og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Aftureldingu sem vann hrinuna 25-16.

Í annarri hrinu var HK í miklum vandræðum með móttöku og sókn en Afturelding gaf ekkert eftir. Mosfellingar náðu 9-2 forystu og héldu áfram að þjarma að HK-ingum. Afturelding vann hrinuna mjög sannfærandi, 25-8 enda spilaði liðið frábærlega í hrinunni. Afturelding leiddi þar með 2-0 og lítið sem benti til þess að HK myndi stríða liðinu mikið í þessum leik.

Þriðja hrinan hófst þó mun betur fyrir HK og náðu gestirnir 1-5 forystu áður en Afturelding tók leikhlé. Forskotið dugði skammt því að Afturelding tók forystuna strax aftur, 6-5, og bauð hrinan upp á mikla skemmtun. HK virtust ætla að ná sér í fjórðu hrinuna og leiddu 17-20 en þá kom góður kafli hjá heimakonum. HK reyndust þó sterkari undir lokin og unnu hrinuna 23-25.

Afturelding leiddi í fjórðu hrinu og juku muninn mikið í fyrri hluta hrinunnar. HK náði góðri pressu úr uppgjöfum um miðja hrinuna og náði í kjölfarið að minnka muninn mikið, sem var mestur 8 stig. HK jafnaði leikinn 17-17 og úr varð annar spennandi lokakafli. Afturelding vann að lokum 25-21 og tryggði 3-1 sigur.

Afturelding hefur nú unnið báða fyrstu leiki sína og er með 6 stig í öðru sæti deildarinnar. Einungis KA er fyrir ofan Aftureldingu en norðankonur eru með 9 stig eftir 3 leiki. HK er í 4. sætinu með 2 stig eftir 3 leiki. Langt er í næstu leiki liðanna en Afturelding mætir Þrótti Neskaupstað 2. nóvember og HK mætir KA 6. nóvember.

Tölfræði úr leiknum er ekki aðgengileg.