[sam_zone id=1]

Ísland tapaði fyrir Færeyjum og endar í þriðja sæti

Ísland lék núna áðan gegn Færeyjum í sínum síðasta leik á evrópukeppni smáþjóða. Liðið hafði fyrir leikinn unnið báða sína leiki á mótinu og gat með sigri tryggt sér gull á mótinu.

Leikurinn byrjaði þó ekki vel fyrir íslenska liðið og lentu þeir fljótt nokkrum stigum undir í hrinunni. Þeir voru þó fljótir að vinna sig aftur inn í leikinn og voru búnir að jafna leikinn um miðja hrinuna. Það voru þó Færeyjingar sem voru sterkari undir lok hrinunnar og unnu þeir fyrstu hrinu 25-22.

Önnur hrinan byrjaði svipað og sú fyrsta, Færeyjingar voru betri í byrjun og náðu fljótt góðu forskoti. Íslendingar áttu í vandræðum með að koma boltanum í gólf Færeyjinga og voru heimamenn mjög sterkir í hávörn og lágvörn í leiknum í dag.
Íslenska liðið náði þó að bæta leik sinn undir lok hrinunnar og með sterkum uppgjöfum náðu íslendingar forystunni undir lok hrinunnar, þá forystu létu strákarnir okkar ekki af hendi og unnu þeir aðra hrinunna 25-21 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Færeyjingar héldu áfram að vera betri í byrjun hverrar hrinu og var þriðja hrinan enginn undantekning. Færeyjar náðu fljótt forskoti og héldu því til loka hrinunnar en Færeyjar unnu 25-22.

Það var því allt undir í fjórðu hrinunni og byrjaði Ísland hrinunna vel og náðu nokkura stiga forskoti. Leikurinn var þó jafn en um miðja hrinu seig Ísland aftur fram úr og var með 18-15 forystu. Færeyjar gáfust þó ekki upp og náðu að jafna leikinn. Úr varð æsispennandi lokakafli þar sem Færeyjar voru sterkari og unnu hrinuna 25-22 og þar með leikinn 3-1.

Ísland endar þar með í þriðja sæti mótsins en þrjú efstu liðin unnu öll tvo leiki og er Ísland með lélegasta hrinuhlutfallið af liðunum þremur.

Skotar unnu mótið og heimamenn í Færeyjum enduðu í öðru sæti en Grænland rak svo lestina án sigurs.

Eftir mót voru svo bestu leikmenn mótsins valdir og var þar Máni Matthíasson valin besti uppspilarinn á mótinu og er hann vel að því kominn en hann spilaði mjög vel um helgina.

Ísland náði því miður ekki að koma heim með gullið en stóð sig þó með prýði á mótinu, liðið var mjög ungt og margir að spila sína fyrstu landsleiki og eiga þessir strákar framtíðina fyrir sér.

Blakfréttir óskar að lokum strákunum okkar til hamingju með bronsið.