[sam_zone id=1]

Calais með frábæran sigur í fyrsta leik í Frakklandi

Tímabilið hófst um helgina í Frakklandi og hófu leikmenn Calais leik í Nationale Elite deildinni eftir að hafa sigrað N2 deildina á síðasta tímabili.

Calais hóf leik á útivelli gegn Harnes, en lið Harnes endaði í fjórða sæti á síðasta tímabili í Elite deildinni og hafa sett stefnuna á að fara upp í Pro B á þessu tímabili, það var því ljóst að það var ærið verkefni sem beið Calais í gær.

Leikurinn var jafn í byrjun en Harnes voru þó aðeins sterkari í byrjun hrinunnar og leiddu með nokkrum stigum. Calais náði þó að hrista stressið af sér og koma sér inn í leikinn. Bæði lið voru að spila flott blak en það voru þó gestirnir í Calais sem að voru sterkari í lok hrinunnar og unnu þeir fyrstu hrinuna 25-19.

Önnur hrinan var svipuð þeirri fyrstu Harnes byrjaði betur og komst 3-0 yfir áður en Calais komst á blað. Calais náði þó að vinna sig inn í leikinn og voru komnir í góða stöðu í lok hrinunnar 23-20. Harnes gafst þó ekki upp og skoraði fjögur stig í röð og breytti stöðunni í 24-23. Calais náðu þó að halda út og unnu hrinunna eftir spennandi lokastig 28-26.

Þriðja hrinan var sú ójafnasta en gestirnir í Calais voru með öll völd í hrinunni og þeir sigldu yfir liðsmenn Harnes og kláruðu hrinuna 25-18 og unnu þar með leikinn 3-0.

Frábær byrjun á tímabilinu hjá Calais en þeir léku frábærlega í gær bæði í vörn og sókn.

Hafsteinn Valdimarsson er á sínu þriðja tímabili með liðinu og hann var í byrjunarliði gestanna í gær og átti mjög góðan leik eins og flest allir í liði Calais í gær.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.