[sam_zone id=1]

Annar sigur Íslands á EM smáþjóða

Karlalandslið Íslands mætti Grænlandi í dag á EM smáþjóða.

Leikurinn í dag var annar leikur liðsins á mótinu en í gær vann liðið sigur á Skotlandi. Með sigri í dag gat liðið komið sér í hálfgerðan úrslitaleik um gullið gegn heimaliði Færeyja. Færeyjar unnu Grænlendinga auðveldlega í gær og miðað við þann leik átti íslenska liðið að vera mun sterkara en það grænlenska.

Ísland byrjaði leikinn af miklum krafti en slakaði aðeins á um miðja hrinuna. Þrátt fyrir augljósan gæðamun á liðunum gerðu mistök íslenska liðsins það að verkum að Grænlendingar héldu í við þá. Grænland komst 18-17 yfir eftir góðan kafla en þá svaraði íslenska liðið loksins. Eftir æsispennandi lokakafla slapp íslenska liðið með skrekkinn og vann hrinuna 26-24.

Ísland byrjaði aftur vel í annarri hrinu en náði ekki að slíta Grænlendingana frá sér. Grænland jafnaði 14-14 en íslenska liðið spilaði langt undir getu eins og í fyrstu hrinunni. Grænlenska liðið náði þó ekki að halda í við Ísland undir lokin og vann Ísland hrinuna 25-21.

Mistök íslenska liðsins héldu áfram í þriðju hrinunni og Grænland hélt í við liðið framan af hrinu. Í stöðunni 13-12 tóku íslensku strákarnir sig á og gekk töluvert betur það sem eftir var hrinu. Ísland tók örugga forystu og vann hrinuna 25-20. Þar með vann Ísland leikinn 3-0 og tekur öll 3 stigin.

Þrátt fyrir að leikurinn hafi einkennst af áhugaleysi og mistökum þá er sigurinn mikilvægur og nú er Ísland með 6 stig eftir tvo leiki. Liðið spilaði á mörgum leikmönnum og ættu flestir því að vera nokkuð ferskir á morgun. Færeyjar mæta Skotlandi í kvöld og kemur þá í ljós hver staðan verður fyrir morgundaginn, lokadag mótsins.

Síðasti leikur Íslands á mótinu verður gegn Færeyjum á morgun og hefst leikurinn klukkan 16:00 (17:00 á staðartíma). Sigur í leiknum myndi þýða að gullverðlaunin yrðu Íslands en nánari upplýsingar um stöðu mótsins verða ekki ljósar fyrr en eftir leik Færeyja og Skotlands.