[sam_zone id=1]

Álftanes vann HK í jöfnum leik

Álftanes tók á móti HK í Mizunodeild kvenna í dag en bæði lið höfðu leikið einn leik í deildinni.

Álftnesingar töpuðu fyrsta leik sínum gegn Aftureldingu en HK vann 3-2 sigur á Þrótti Reykjavík í sínum fyrsta leik.

Álftanes hóf leikinn vel og komst 7-1 yfir strax í upphafi fyrstu hrinu. HK-ingar tóku aðeins við sér í kjölfarið en Álftanes hélt þó 3-6 stiga forystu lengst af hrinunni. Gestirnir komust á skrið í seinni hluta hrinunnar, breyttu stöðunni úr 16-10 í 19-19 og gerðu lokakafla hrinunnar æsispennandi. Álftnesingar reyndust sterkari undir lokin og unnu hrinuna 25-23.

Álftnesingar byrjuðu aðra hrinuna á að komast í 7-3 en HK-ingar minnkuðu muninn fljótt í 7-6. Þá fóru heimakonur aftur á flug og breyttu stöðunni í 11-6. Nokkuð jafnt var seinni hluta hrinunnar en Álftanes hafði þó forystuna allan tímann. Undir lokin komst HK mjög nálægt heimakonum en Álftanes vann hrinuna þó 25-22 og náði 2-0 forystu í leiknum.

Þriðja hrinan var sú jafnasta í leiknum en hvorugt lið náði að slíta sig frá hinu. Svo jöfn var hrinan að munurinn fór aldrei fyrir tvö stig. HK voru komnar í góða stöðu undir lokin og leiddu 21-23 en þá skelltu Álftnesingar í lás og skoruðu síðustu fjögur stigin, þar af skoraði Sladjana Smiljanic tvo ása úr uppgjöf. Álftanes vann hrinuna því 25-23 og leikinn 3-0.

Sladjana Smiljanic var stigahæst í liði Álftaness með 18 stig en Líney Inga Guðmundsdóttir skoraði 13 stig fyrir HK. Álftanes nær þar með í fyrsta sigur sinn á tímabilinu og er í 3. sætinu með 3 stig eftir tvo leiki. HK er í fjórða sæti með 2 stig eftir 2 leiki.

Bæði lið leika næst á miðvikudag en Álftanes fer norður á Akureyri og leikur gegn KA á meðan að HK mætir Aftureldingu í Mosfellsbæ. Eftir þá leiki tekur svo við pása í deildinni og liðin fá tíma til að safna kröftum og stilla sig betur saman.