[sam_zone id=1]

Ísland vann Skotland á EM smáþjóða

Karlalandslið Íslands hóf leik á EM smáþjóða í dag þegar liðið mætti Skotlandi.

Fjögur lið taka þátt í mótinu í ár en það eru Ísland, Skotland, Færeyjar (gestgjafar) og Grænland. Lið Íslands var töluvert breytt frá Smáþjóðaleikunum í vor og í liðinu voru þrír nýliðar.

Í fyrstu hrinu var íslenska liðið heldur bitlaust í sókn og Skotarnir sigu smám saman fram úr. Þeir skosku voru hins vegar að gefa margar uppgjafir út sem hélt íslenska liðinu inni í hrinunni. Í stöðunni 15-10 fyrir Skotland náði Ísland að minnka muninn en Skotar voru skrefinu á undan. Miðjuspilið hjá Skotlandi var gott seinni hluta hrinunnar og þeir kláruðu hana 25-19.

Íslenska liðið náði stöðugra spili í annarri hrinu með góðri hávörn og lágvörn. Um miðja hrinuna kom þó slæmur kafli hjá íslenska liðinu og Skotarnir náðu forystunni, 17-16. Filip Szewczyk, þjálfari íslenska liðsins, tók leikhlé í stöðunni 21-19 fyrir Skotland og í kjölfarið jafnaði Ísland 21-21. Eftir spennandi lokakafla vann Ísland hrinuna 22-25 og jafnaði leikinn 1-1.

Þriðja hrinan var keimlík þeirri fyrstu þar sem að íslenska liðið þurfti að elta það skoska. Skotarnir komust snemma yfir og höfðu nokkurra stiga forystu framan af hrinunni. Ísland náði að jafna leikinn 17-17 með mikilli baráttu og var lokasprettur hrinunnar spennandi. Ísland vann hrinuna að lokum 23-25 og náði 1-2 forystu.

Í fjórðu hrinunni var allt í járnum. Hnífjafnt var alla hrinuna en undir lokin kom frábær kafli hjá Íslandi og náðu strákarnir 17-23 forystu seint í hrinunni. Skotar löguðu stöðuna aðeins en Ísland vann hrinuna 22-25 og vann þar með leikinn 1-3. Frábær sigur í fyrsta leik mótsins.

Karlalandslið Íslands vann síðast mótsleik í maí 2017 þegar úrslitahelgi EM smáþjóða var haldin á Íslandi. Þá bar Ísland sigurorð af liði Norður-Írlands. Liðið hefur vissulega mætt sterkum mótherjum síðan þá en það var löngu kominn tími á sigur.

Strákarnir geta fagnað þessu í kvöld en á morgun mæta þeir liði Grænlands. Færeyjar unnu Grænland sannfærandi í kvöld og verður fróðlegt að sjá leik Íslands gegn Grænlendingum á morgun. Sá leikur hefst klukkan 15:00 og verður í beinni útsendingu á YouTube-rás færeyska blaksambandsins.