[sam_zone id=1]

Serbar Evrópumeistarar karla 2019

Serbía og Slóvenía mættust í úrslitaleik EM karla í dag.

Serbar unnu 3-2 sigur á Frakklandi í undanúrslitunum en Slóvenar unnu ótrúlegan sigur á Pólverjum. Mikil eftirvænting var eftir leiknum þar sem ævintýri Slóvena gæti haldið áfram en Serbar gátu tryggt sér titilinn eftir að hafa unnið Evrópumót kvenna í upphafi mánaðar.

Fyrsta hrina var hnífjöfn til að byrja með en eftir að liðin rufu 10 stiga múrinn tóku Slóvenar forystuna. Þeir náðu 5 stiga forystu um miðja hrinuna og Serbar réðu illa við sóknir Slóvena. Serbar náðu ekki að saxa á forystuna og Slóvenar unnu hrinuna sannfærandi, 19-25.

Dæmið snerist svo við í annarri hrinu en Mitja Gasparini, díó Slóveníu, var í miklum vandræðum eftir að hafa spilað frábærlega í fyrstu hrinunni. Serbar héldu áfram að þjarma að Slóvenum og unnu aðra hrinuna auðveldlega, 25-16. Serbarnir voru með 8 hávarnir í hrinunni sem mörg lið myndu sætta sig við fyrir heilan leik.

Serbar héldu góðu spili áfram í þriðju hrinu og fór Aleksandar Atanasijevic fyrir sóknarleik liðsins. Slóvenar virtust uppgefnir og Serbarnir voru sannfærandi í öllum sínum aðgerðum. Slóvenar breyttu mikið til í liði sínu og spil þeirra var einhæft. Serbía vann hrinuna 25-18 og var í góðri stöðu.

Í fjórðu hrinunni voru Serbar enn sterkir og byggðu upp forystu smám saman. Hávörn þeirra var frábær og þrátt fyrir að hafa slakað örlítið á undir lokin unnu þeir fjórðu hrinuna nokkuð sannfærandi, 25-20. Serbía vann þar með 3-1 og vann alla níu leiki sína á mótinu.

Aleksandar Atanasijevic var stigahæstur í liði Serba með 22 stig og Uros Kovacevic bætti við 20 stigum. Klemen Cebulj skoraði 15 stig fyrir Slóveníu og Alen Pajenk skoraði 12 stig.

Serbar eru nú Evrópumeistarar í karla- og kvennaflokki. Frábærum Evrópumótum CEV er þar með lokið og voru viðburðirnir báðir tveir frábær skemmtun. RÚV fær mikið hrós frá Blakfréttum fyrir að sýna frá Evrópumótunum og fyrir aukna umfjöllun.