[sam_zone id=1]

EuroVolley 2019: Serbía mætir Slóveníu í úrslitum

Seinni undanúrslitaleikur EM karla fór fram í gærkvöldi þegar Frakkland og Serbía mættust í París.

AccorHotels höllin í París var troðfull í gærkvöldi þegar leikur Serba og Frakka fór fram en um 12.500 árhorfendur voru í höllinni. Fyrstu tvær hrinur leiksins voru gríðarlega spennandi og lauk með minnsta mun. Fyrstu hrinuna vann Frakkland 23-25 eftir að hafa leitt stóran hluta hrinunnar en í annarri hrinu unnu Serbar 25-23 þrátt fyrir að hafa mikið forskot um miðja hrinuna.

Frakkar byrjuðu þriðju hrinuna mjög vel en misstu tökin fljótlega. Serbarnir leiddu það sem eftir var hrinu og sigldu á endanum heim öruggum 25-21 sigri í hrinunni. Aftur byrjuðu Frakkar vel í fjórðu hrinu en í þetta skiptið héldu þeir áfram að auka við forystuna. Þeir unnu hrinuna auðveldlega, 17-25, og því réðust úrslit leiksins í oddahrinu.

Í oddahrinunni var hávörn og sókn Serba stórkostleg og komust þeir 5-0 yfir. Frakkar áttu í vandræðum með að skora gegn hávörn Serbanna og það sem fór framhjá henni kom til baka sem sóknarstig Serba. Sóknarnýting Serba var 73% í hrinunni gegn einungis 25% nýtingu Frakka. Aleksandar Atanasijevic var óstöðvandi og skoraði 6 stig í hrinunni sem Serbar unnu sannfærandi 15-7. Þar með fara Serbar í úrslitaleik mótsins en Frakkar leika um bronsið í dag.

Frakkland mætir Póllandi í bronsleiknum sem hefst klukkan 16:00. Bronsleikurinn og úrslitaleikurinn fara einnig fram í AccorHotels höllinni í París og verður mikið fjör þar um helgina. Á sunnudag fer svo fram úrslitaleikur Serbíu og Slóveníu.

Leikur gærdagsins

Serbía 3-2 Frakkland (23-25, 25-23, 25-21, 17-25, 15-7). Aleksandar Atanasijevic skoraði 27 stig fyrir Serbíu og Uros Kovacevic bætti við 18 stigum. Earvin Ngapeth var stigahæstur Frakka með 29 stig en á eftir honum kom Stephen Boyer með 19 stig.

Leikur dagsins

16:00 Frakkland – Pólland

Mynd fengin af heimasíðu EuroVolley 2019.