[sam_zone id=1]

EuroVolley 2019: Pólverjar fá brons

Frakkland og Pólland mættust í bronsleik EM karla í dag.

Frakkar töpuðu sínum undanúrslitaleik gegn Serbum í gær en Pólverjar töpuðu gegn Slóvenum í fyrradag. Bronsleikurinn var jafn til að byrja með en Frakkar höfðu þó nokkurra stiga forystu. Pólverjarnir voru aldrei langt undan og náðu að jafna 19-19. Pólverjarnir unnu hrinuna 24-26 eftir mikla spennu og tóku 0-1 forystu í leiknum.

Í annarri hrinu var um sömu uppskrift að ræða. Frakkarnir höfðu forystuna lengi vel en Pólverjar hrifsuðu af þeim forystuna undir lokin. Aftur voru þeir pólsku sterkari undir lokin og unnu þeir aðra hrinuna 22-25. Þar með voru Frakkarnir komnir með bakið upp við vegginn fræga og á síðasta séns.

Í þriðju hrinu byrjuðu Pólverjar betur og héldu 1-2 stiga forystu fram eftir hrinu. Seinni hluta hrinunnar juku þeir forskotið svo og voru alltaf 2-3 stigum á undan. Frakkarnir komust einfaldlega ekki nær og Pólland vann hrinuna 21-25. Þar með vann Pólland leikinn 0-3 og tryggði bronsverðlaunin á EM 2019.

Á morgun fer úrslitaleikur mótsins fram og hefst hann klukkan 15:30. Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV 2 en útsendingin hefst 15:20.

Úrslit dagsins

Frakkland – Pólland (24-26, 22-25, 21-25). Earvin Ngapeth skoraði 18 stig fyrir Frakkland og Trévor Clevenot bætti við 13 stigum. Kantar Póllands voru öflugastir í þeirra liði en Wilfredo Leon skoraði 18 stig og Michal Kubiak 14 stig.

Leikur morgundagsins

15:30 Serbía – Slóvenía (RÚV 2)

Mynd fengin af heimasíðu EuroVolley 2019.