[sam_zone id=1]

EuroVolley 2019: Ævintýri Slóveníu heldur áfram

Fyrri undanúrslitaleikur EM karla fór fram í gær þegar Slóvenar mættu Pólverjum á heimavelli.

Ótrúleg stemning var á leiknum sem fór fram í Dvorana Center Stozice höllinni í Ljubljana fyrir framan rúmlega 11 þúsund áhorfendur. Pólverjar byrjuðu mun betur og höfðu 5 stiga forystu snemma í fyrstu hrinu. Slóvenar unnu muninn smám saman upp og náðu að kreista fram 23-25 sigur í hrinunni. Önnur hrina var eins jöfn og þær gerast. Munurinn varð einu sinni 3 stig en annars skildu 1-2 stig liðin að út hrinuna.

Slóvenía var alltaf skrefinu á undan en Pólverjar náðu að jafna 24-24 og unnu svo hrinuna 24-26. Pólverjar komust í fyrsta sinn í hrinunni yfir í stöðunni 25-24 svo það er í raun ótrúlegt að þeir hafi unnið hrinuna. Í þriðju hrinu höfðu Slóvenar nokkuð góð tök á Pólverjum og unnu hrinuna 22-25 eftir að hafa leitt frá því að jafnt var 6-6 í upphafi hrinu. Slóvenía hafði þar með 1-2 forystu í hrinum talið og í dauðafæri á að slá heimsmeistarana úr leik.

Enn var hnífjafnt í fjórðu hrinu en nú voru það Pólverjar sem voru skrefinu á undan. Liðin skiptust á stigum á lokakafla hrinunnar og Slóvenar komust yfir 21-22 og reyndust sterkari undir lokin. Þeir unnu hrinuna 23-25 og unnu leikinn 1-3. Leikurinn var stórkostleg skemmtun og einstakt að sjá áhorfendur skemmta sér og öðrum allan leikinn.

Leikmenn og áhorfendur Slóveníu fögnuðu saman að leikslokum.

Slóvenar hafa nú slegið út ríkjandi evrópumeistara Rússlands og ríkjandi heimsmeistara Póllands. Í dag kemur í ljós hver andstæðingur þeirra veðrur í úrslitaleiknum, sem og hver andstæðingur Pólverja verður í bronsleiknum. Undanúrslitaleikur Serbíu og Frakklands hefst klukkan 19:00 og hefst bein útsending á RÚV 2 klukkan 18:50.

Leikur gærdagsins

Pólland 1-3 Slóvenía (23-25, 26-24, 22-25, 23-25). Wilfredo Leon átti góðan leik fyrir Pólland og var stigahæstur allra með 22 stig. Hann var stigahæsti leikmaður vallarins í sókn, uppgjöf og hávörn. Í liði Slóvena var Tine Urnaut stigahæstur með 18 stig.

Leikur dagsins

19:00 Serbía – Frakkland (RÚV 2)

Myndir fengnar af heimasíðu EuroVolley 2019.