[sam_zone id=1]

HK hafði betur í miðnætur slagnum

HK og Afturelding mættust í Mizunodeild karla í kvöld en leikið var í Fagralundi.

Leikurinn var hörkuspennandi og fór alla leið í oddahrinu, leikurinn átti upphaflega að hefjast kl 20:30 en leikur HK og Þróttar Reykjavíkur sem var spilaður á undan fór einnig í oddahrinu þá hófst leikurinn ekki fyrr en rúmlega 60 mínútum seinna. Fyrir vikið lauk leiknum ekki fyrr en rúmlega 23:30 sem verður að teljast ansi óhentugur tími fyrir íþróttaviðburð.

Afturelding byrjaði leikinn vel og vann fyrstu hrinu 25-20 en hrinan var nokkuð kaflaskipt og skiptust liðin á að eiga góða kafla. Heimamenn fóru nokkuð öflugri af stað í annarri hrinu og voru með forustu megnið af hrinunni, Afturelding var hinsvegar aldrei langt á eftir en HK fór með sigur 25-22. Andreas Hilmir Halldórsson fór meiddur af velli undir byrjun hrinu og kom hinn ungi Hermann Hlynsson inn í hans stað. Lúðvík Már Matthíasson fyrirliði HK sem spilar alla jafna sem uppspilari, tók stöðu díó það sem eftir lifði leiks.

Þriðja hrina var hörkuspennandi og var hún í járnum út í gegn. Hrinan fór í upphækkun en endaði að lokum með sigri HK 28-26. Gestirnir gáfust hinsvegar ekki upp og tryggðu sér oddahrinu með sigri í fjórðu hrinu 25-16 en yfirburðir Aftureldingar voru töluverðir í hrinunni.

Afturelding komst í góða stöðu í oddahrinunni 5-1 en þá skellti HK í lás. HK jafnaði 6-6 og komst svo yfir 7-6. Að lokum voru það HK sem höfðu betur 15-11.

Stigahæstur í leiknum var Quentin Moore leikmaður Aftureldingar með 21 stig. Stigahæstur hjá HK var Janis Novikovs með 18 stig.