[sam_zone id=1]

EuroVolley 2019: Frakkar mæta Serbum í undanúrslitum

Í gær lauk 8-liða úrslitum EM karla með seinni tveimur leikjunum.

Serbar riðu á vaðið gegn Úkraínu og þóttu Serbarnir mun sigurstranglegri fyrirfram. Úkraínumenn komu hins vegar gríðarlega sterkir til leiks og unnu fyrstu hrinu leiksins. Serbar tóku þá næstu tvær en leikurinn var þó enn mjög jafn. Úkraína náði í oddahrinu en lengra komust þeir ekki. Serbar unnu oddahrinuna nokkuð sannfærandi og unnu leikinn 3-2.

Í seinni leiknum mættust Frakkland og Ítalía en Frakkar báru sigurorð af Ítölum þegar liðin mættust í riðlakeppninni í síðustu viku. Það sama mátti segja um þennan leik eins og þann í riðlakeppninni en Frakkar reyndust einfaldlega sterkari. Þeir komust í 2-0 eftir jafna aðra hrinu en völtuðu yfir Ítali í þriðju hrinu og unnu leikinn 3-0.

Í dag, miðvikudag, er frí hjá liðunum sem eftir eru en undanúrslitaleikirnir fara fram á fimmtudag og föstudag. Fyrri leikurinn verður Slóvenía-Pólland og seinni leikurinn Frakkland-Serbía. Úrslitaleikurinn og bronsleikurinn fara svo fram um helgina. Báðir undanúrslitaleikirnir verða sýndir á RÚV 2, auk úrslitaleiksins sem fram fer á sunnudag.

Úrslit gærdagsins

Serbía 3-2 Úkraína (21-25, 25-23, 25-22, 19-25, 15-9). Aleksandar Atanasijevic og Uros Kovacevic leiddu Serbíu en Aleksandar skoraði 24 stig og Uros bætti við 21 stigi. Ian Iereschenko var stigahæstur í liði Úkraínu með 18 stig en næstur kom Dmytro Viietskyi með 17 stig.

Frakkland 3-0 Ítalía (25-16, 27-25, 25-14). Stephen Boyer skoraði 25 stig fyrir Frakkland en hann skoraði 9 stig beint úr uppgjöf. Osmany Juantorena var skástur í liði Ítalíu og skoraði 9 stig. Ivan Zaytsev, fyrirliði Ítalíu, átti skelfilegan dag og var einungis með 7% sóknarnýtingu í leiknum.

Mynd fengin af heimasíðu EuroVolley 2019.