[sam_zone id=1]

Þróttur Nes og KA skiptu með sér sigrum í Neskaupstað

Þróttur Nes tók á móti KA í Mizunodeildum karla og kvenna í dag.

Eins og í gær mættust liðin í bæði karla- og kvennaflokki. Konurnar hófu leik og byrjuðu gestirnir frá Akureyri vel. Þær náðu forystu í upphafi hrinunnar og leiddu mestan hluta hennar. Þær lentu hins vegar í miklu basli eftir miðbik hrinunnar og heimakonur óðu fram úr þeim. Þróttur Nes vann hrinuna 25-20 og leiddu 1-0 á heimavelli.

KA hóf aðra hrinuna mjög vel og Luz Medina gerði Þrótturum lífið leitt með góðum uppgjöfum. KA hélt áfram að þjarma að Þrótti og valtaði yfir heimakonur í hrinunni, unnu hana 16-25 og jöfnuðu leikinn 1-1. Það sama mátti segja um þriðju hrinu. Þróttur Nes náði aldrei að skora tvö eða fleiri stig í röð fyrr en KA hafði náð öruggri forystu undir lok hrinunnar en henni lauk 13-25 fyrir KA.

Þróttarar náðu að halda í við KA í fjórðu hrinu en um hana miðja fór KA aftur í fluggírinn. Þróttur náði ekki að ógna forystu KA sem vann hrinuna 17-25 og vann leikinn þar með 1-3.

Systurnar Heiða Elísabet og Helena Kristín Gunnarsdætur voru stigahæstar í leiknum. Heiða skoraði 15 stig fyrir Þrótt Nes og Helena skoraði 19 stig fyrir KA. Lið KA er þar með á toppi deildarinnar eftir helgina þar sem að liðið er með 6 stig af 6 mögulegum. Bæði lið eiga nú smá pásu fram að næstu leikjum sem verða leiknir snemma í október.

Í karlaflokki var spennan öllu meiri. KA var enn án Miguel Mateo og voru liðin nokkurn veginn þau sömu og í gær. Fyrsta hrina var nokkuð jöfn en Þróttur var skrefinu á undan. Um miðja hrinuna tóku þeir svo fram úr en KA jafnaði leikinn 19-19. Þróttur Nes reyndist sterkari á lokakaflanum og vann hrinuna 25-23.

Önnur hrina spilaðist nánast nákvæmlega eins og sú fyrsta að því leyti að Þróttur hafði smá forystu stóran hluta hrinunnar en jafnt var undir lokin. Í þetta skiptið voru KA sterkari og þeir jöfnuðu leikinn með því að vinna hrinuna 25-27. Í þriðju hrinu voru Þróttarar öflugri og höfðu forystuna nánast alla hrinuna. Þrátt fyrir smá endurkomu frá KA vann Þróttur hrinuna 25-20 og náði forystunni aftur, 2-1.

Fjórða hrina var æsispennandi og var munurinn aldrei meiri en 3 stig. KA var eins og áður undir stóran hluta hrinunnar en Þróttur náði ekki að slíta þá frá sér. Jafnt var 23-23 undir lok hrinunnar en þá tók Migeul Angel Ramos Melero málin í sínar hendur og skoraði síðustu tvö stig leiksins. Þar með vann Þróttur Nes hrinuna 25-23 og tryggði sér 3-1 sigur á Íslandsmeisturunum.

Miguel Angel Ramos Melero var atkvæðamestur í liði Þróttar og skoraði 19 stig en Alexander Arnar Þórisson var allt í öllu hjá KA. Hann skoraði 27 stig í leiknum eða helming allra þeirra stiga sem norðanmenn skoruðu sjálfir.

Þróttur Nes er nú í öðru sæti deildarinnar með fullt hús stiga en HK er í 1. sætinu með jafn marga sigra og stig en hafa ekki enn tapað hrinu. KA mætir Álftanesi á miðvikudag og geta þá náð í fyrstu stigin í deildarkeppninni. Þróttur Nes á langa pásu í vændum en næsti leikur þeirra er gegn HK þann 19. október.

Mynd fengin af Facebook-síðu Blakdeildar Þróttar Neskaupstað.