[sam_zone id=1]

HK vann Vestra öðru sinni

HK og Vestri mættust aftur í Mizunodeild karla í dag.

Þessi sömu lið mættust í gær og lauk þeim leik með 3-0 sigri heimamanna og var leikið aftur í dag. Fyrir leikinn fór fram leikur HK b og Vestra í Benectadeild kvenna og varð þar úr æsispennandi leikur sem lauk með 3-2 sigri heimakvenna í HK. Að honum loknum hófst svo karlaleikurinn.

Liðin tefldu fram nokkurn veginn sömu leikmönnum og í gær en fyrsta hrina varð heldur einkennileg. Hrinan var hnífjöfn allan tímann en HK-ingar gerðu sjálfum sér erfitt fyrir með uppgjafarmistökum og Vestri setti mikla pressu á HK. Eftir spennandi lokakafla vann HK þó hrinuna 31-29 og náði 1-0 forystu í leiknum.

Enn var nokkuð jafnræði með liðunum í annarri hrinu en um miðja hrinuna seig HK þó fram úr. Góð hávörn gerði leikmönnum Vestra erfitt fyrir og meginmunurinn í hrinunni lá í sóknarleik liðanna þar sem HK hafði mikla yfirburði. Þeir unnu hrinuna 25-16 og voru komnir í ansi þægilega stöðu.

HK gaf svo ekkert eftir í þriðju hrinunni og var yfir alveg frá upphafi. Þeir juku forystuna út hrinuna og unnu hana örugglega, 25-14. Þeir tryggðu þar með annan 3-0 sigur sinn þessa helgina og eru á toppi deildarinnar með 6 stig. Þróttur Nes er einnig með 6 stig eftir sigur á KA í dag en eru með örlítið slakara hrinuhlutfall.

Bjarki Benediktsson var stigahæstur HK-inga í dag en hann skoraði 16 stig. Fjórir aðrir leikmenn HK skoruðu að minnsta kosti 8 stig. Í liði Vestra voru Álvaro Cunedo Gonzáles Gonzáles og Marc Marín Mateu með 7 stig hvor auk þess sem Juan Manuel Escalona Rojas bætti við 6 stigum.