[sam_zone id=1]

EuroVolley 2019: Úkraína sló Belgíu út

EM karla hélt áfram í gær og urðu ansi óvænt úrslit þegar gestgjafar Belga féllu úr leik.

Leikið var í 16-liða úrslitum í gær en þá fóru allir leikir nema einn fram. Pólverjar, Serbar, Rússar og Frakkar unnu þægilega sigra á andstæðingum sínum en mikil spenna var þegar Þjóðverjar slógu út Holland með sterkum 3-1 sigri. Einnig var þó nokkur spenna í leik Slóveníu og Búlgaríu en Slóvenar fóru með sigur í þeim leik.

Ótrúlegur leikur fór fram í Belgíu í gærkvöldi þegar gestgjafar Belgíu mættu Úkraínu. Úkraínumenn höfðu átt ágætis mót en Belgar ætluðu sér stóra hluti. Úkraína hóf leikinn vel og vann fyrstu hrinu nokkuð sannfærandi. Eftir ótrúlega endurkomu í annarri hrinu náði Belgía að jafna leikinn 1-1 og komst svo 2-1 yfir með því að vinna þriðju hrinuna 25-14.

Úkraína lék vel í fjórðu hrinunni og seig fram úr undir lok hennar. Þeir unnu hrinuna 18-25 og úrslitin réðust í oddahrinu. Í oddahrinunni voru Úkraínumenn mun sterkari og unnu hana sannfærandi, 10-15. Þar með vann Úkraína leikinn 2-3 og mætir sterku liði Serbíu í 8-liða úrslitunum.

Í 8-liða úrslitum mæta Serbar liði Úkraínu, Rússland mætir Slóveníu og Pólland mætir Þýskalandi. Frakkar mæta svo sigurvegaranum úr viðuregin Ítalíu og Tyrklands. Þessir leikir fara fram 23. og 24. september.

Úrslit gærdagsins

Frakkland 3-0 Finnland (25-16, 25-23, 25-21). Stephen Boyer skoraði 19 stig fyrir Frakkland en Urpo Sivula var stigahæstur í liði Finnlands með 11 stig.

Serbía 3-0 Tékkland (31-29, 25-21, 25-18). Uros Kovacevic skoraði 17 stig fyrir Serbíu en Donovan Dzavoronok skoraði 18 stig fyrir Tékkland.

Belgía 2-3 Úkraína (22-25, 25-21, 25-14, 18-25, 10-15). Bram Van Den Dries skoraði 19 stig fyrir Belgíu en Dmytro Viietskyi skoraði 23 stig fyrir Úkraínu.

Rússland 3-0 Grikkland (25-16, 25-15, 25-16). Dmitrii Volkov var stigahæstur Rússa með 18 stig en Andreas-Dimitrios Fragkos og Georgios Papalexiou skoruðu 6 stig hvor fyrir Grikkland.

Slóvenía 3-1 Búlgaría (25-27, 25-17, 25-16, 25-16). Klemen Cebulj skoraði 17 stig fyrir Slóveníu en Martin Atanasov og Tsvetan Sokolov skoruðu 12 stig hvor fyrir Búlgaríu.

Pólland 3-0 Spánn (25-18, 25-13, 25-16). Wilfredo Leon skoraði 19 stig fyrir Pólland en Jorge Fernandez Valcarcel skoraði 6 stig fyrir Spán.

Holland 1-3 Þýskaland (17-25, 22-25, 32-30, 23-25). Nimir Abdel-Aziz skoraði 29 stig fyrir Holland en György Grozer skoraði 20 stig fyrir Þýskaland.

Leikur dagsins

15:00 Ítalía – Tyrkland

Mynd fengin af heimasíðu EuroVolley 2019.