[sam_zone id=1]

Þróttur Nes skellti KA fyrir austan

Þróttur Nes tók á móti þreföldum meisturum KA í Mizunodeild karla en leikið var í Neskaupstað.

Bæði lið voru með nokkuð breytta leikmannahópa frá síðasta vetri. KA komu til leiks án Miguel Mateo Castrillo sem var fjarverandi í dag en þá hafa Mason Casner, Stefano Hidalgo og Sigþór Helgason róað á önnur mið. Þróttur Nes bætti við sig spænskum leikmanni, Jesus Montero Romero en hann kom lítið við sögu í dag. Þá er nýr þjálfari tekinn við liðinu en Raul Rocha tók við liðinu í vetur.

Fyrsta hrina leiksins var nokkuð jöfn en endaði að lokum með sigri Þróttar 25-23. Þróttarar áttu ekki í miklum vandræðum með KA í næstu tveimur hrinum en Þróttur sigraði þær með töluverðum yfirburðum, 25-16 og 25-15.

Því miður var ekki aðgengilegt stigaskor á meðan á leiknum stóð og því er ekki hægt að greina frá því hvaða leikmenn skoruðu flest stig í leiknum.