[sam_zone id=1]

EM karla hefst á morgun

Á morgun, 12. september, hefst Evrópumót karla í blaki 2019.

Evrópumóti kvenna lauk síðasta sunnudag þegar að Serbar vörðu titil sinn gegn Tyrkjum. Nú er komið að körlunum að láta ljós sitt skína en 6 leikir fara fram á morgun, í tveimur löndum. Rússar eru ríkjandi meistarar en þeir munu leika í C-riðli í Slóveníu.

Eins og á kvennamótinu eru fjórar þjóðir sem halda mótið í sameiningu og karlamegin eru það Frakkland, Belgía, Holland og Slóvenía. Á morgun fara fram leikir í A-riðli og C-riðli en liðin í B-riðli og D-riðli hefja keppni á föstudag.

Í hverjum riðli eru 6 lið og fara fjögur lið úr hverjum riðli áfram í 16-liða úrslitin. Riðlarnir eru eftirfarandi :

A-riðill : Frakkland – Ítalía – Búlgaría – Portúgal – Grikkland – Rúmenía

B-riðill : Belgía – Serbía – Þýskaland – Slóvakía – Spánn – Austurríki

C-riðill : Slóvenía – Rússland – Finnland – Tyrkland – Norður-Makedónía – Hvíta-Rússland

D-riðill : Holland – Pólland – Tékkland – Eistland – Úkraína – Svartfjallaland

CEV, Blaksamband Evrópu, mun sýna frá öllum leikjum mótsins í gegnum sjónvarpsstöð sína á netinu, EuroVolleyTV. Síðan er aðgengileg á Íslandi og hægt er að skrá sig gegn mjög vægu gjaldi þar sem mánaðaráskrift fæst fyrir undir 1.000 kr. Þar með fæst aðgangur að öllum leikjum mótsins auk samantekta.

Úrslitaleikur mótsins verður svo í beinni útsendingu á RÚV 2 en hann fer fram þann 29. september. Einnig verða undanúrslitaleikirnir sýndir en þeir fara fram fimmtudaginn 26. september og föstudaginn 27. september.

Leikir morgundagsins :

A-riðill (Montpellier, Frakkland)

12:15 Búlgaría – Grikkland

15:15 Portúgal – Ítalía

18:45 Frakkland – Rúmenía

C-riðill (Ljubljana, Slóvenía)

12:30 Tyrkland – Rússland

15:30 Finnland – Norður-Makedónía

18:30 Slóvenía – Hvíta-Rússland

Allar tímasetningar miðast við íslenskan tíma.

Frekari upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu CEV eða á sérstakri heimasíðu Evrópumótsins 2019.