[sam_zone id=1]

Bronsið til Ítalíu

Ítalía og Pólland mættust í bronsleik EM kvenna sem lauk rétt í þessu.

Þessi lið höfðu áður mæst í keppninni en Pólverjar unnu 3-2 sigur á Ítölum í B-riðli. Í undanúrslitunum þurfti Ítalía svo að sætta sig við 3-1 tap gegn Serbíu og Pólverjar töpuðu sömuleiðis 3-1 gegn Tyrkjum.

Bæði lið byrjuðu vel í fyrstu hrinu leiksins og var jafnt á öllum tölum. Uppspilarar beggja liða dreifðu spilinu vel í sóknarleiknum og sóknarnýting liðanna var góð. Um miðja hrinu skoraði Ítalía 5 stig í röð með Cristinu Chirichella í uppgjöf og þær pólsku áttu erfitt með að minnka muninn eftir það.

Undir lok hrinunnar fóru Ítalir hins vegar að treysta of mikið á Egonu í sókninni sem gaf Póllandi færi á endurkomu. Þær minnkuðu muninn í 21-20 og jöfnuðu 23-23. Lokastig hrinunnar var langt og spennandi en Ítalía skoraði það, vann hrinuna 25-23 og náði forystunni í leiknum.

Ítalía hóf aðra hrinuna einnig vel og komust 3-0 yfir áður en Pólverjar tóku leikhlé. Einhverjar tafir urðu þá á leiknum vegna tæknivandamála á ritaraborðinu og lengdist leikhlé Póllands töluvert í kjölfarið. Þegar leikurinn hófst loks aftur gaf Ítalía þó í og Pólland nýtti seinna leikhlé sitt í stöðunni 7-1.

Pólska liðið vaknaði aðeins til lífsins en Ítalía gaf þó ekkert eftir. Þær spiluðu frábærlega og hleyptu Pólverjunum aldrei inn í hrinuna aftur. Ítalska liðið slakaði þó aðeins á undir lokin en vann hrinuna að lokum 25-20 og var þá komið í ansi vænlega stöðu, 2-0 yfir.

Í þriðju hrinu voru það loksins þær pólsku sem byrjuðu betur. Liðið náði strax forystu og leiddi fyrri hluta hrinunnar með 2-3 stigum. Paola Egonu tók þá málin í sínar hendur og Ítalía jafnaði 14-14. Hnífjafnt var allt fram að lokum hrinunnar en það voru þær ítölsku sem reyndust sterkari og tryggðu sér 26-24 sigur með skrautlegum ás. Þær unnu leikinn þar með 3-0 og fá bronsverðlaun á EM kvenna í blaki 2019.

Ítalska liðið fagnar sigri.

Paola Egonu var langstigahæst í liði Ítalíu með 23 stig en Indre Sorokaite kom þar á eftir með 12 stig. Í liði Póllands skoraði Malwina Smarzek-Godek 15 stig og Magdalena Stysiak bætti við 12 stigum.

( Myndir fengnar af heimasíðu CEV )