[sam_zone id=1]

Serbía varði Evrópumeistaratitilinn

Úrslitaleik EM kvenna lauk rétt í þessu en þar mættu gestgjafar Tyrklands liði Serbíu.

Fyrir þennan leik hafði Serbía unnið alla leiki sína í mótinu en Tyrkland hafði tapað einum leik. Sá leikur var einmitt gegn Serbíu í A-riðli keppninnar. Serbar sigruðu svo Rúmeníu, Búlgaríu og Ítalíu á leið sinni í úrslitaleikinn en Tyrkir slógu Króata, Hollendinga og Pólverja út.

Serbar byrjuðu leikinn vel og náðu strax nokkurra stiga forystu en það dugði þó skammt. Heimakonur voru fljótar að jafna leikinn og fengu mikinn stuðning frá um þrettán þúsund Tyrkjum í höllinni. Tyrkland náði svo 14-16 forystu og tók Serbía sitt fyrsta leikhlé í hrinunni. Heimakonur náðu að loka vel á Boskovic og leikur Serba fór gjörsamlega úr skorðum.

Eftir að Tyrkland hafði náð 5 stiga forystu fóru Serbar aftur í gang og tóku Tyrkir leikhlé í stöðunni 20-22. Tyrkland kláraði hrinuna þó 21-25 og leiddu því 0-1. Miðjuspil Serba var sama og ekkert enda höfðu Tyrkir mikla yfirburði í móttöku. Hjá Tyrkjum voru þrír leikmenn með 4 stig eða fleiri og leiddu heimakonur í langflestum tölfræðiþáttum.

Allt annað var að sjá til Serbíu í annarri hrinu. Þær virtust mun einbeittari og grimmari enda náðu þær fljótt 6-2 forystu. Brankica Mihajlovic leiddi liðið með frábærum sóknum og uppgjöfum sem Tyrkirnir áttu engin svör við. Bæði lið spiluðu þó ágætt blak framan af hrinunni en Serbar héldu þægilegri forystu.

Uppgjafir og móttaka Serbíu var mun betri en í fyrstu hrinunni og í kjölfarið varð spil þeirra mun fjölbreyttara og beittara. Tyrkir reyndu allt mögulegt og náðu að minnka muninn í 3 stig, 22-19. Nær komust þær ekki og hrinunni lauk með 25-21 sigri Serbíu sem jafnaði leikinn þar með 1-1.

Serbía tók forystuna í þriðju hrinu en Tyrkir gerðu hver mistökin á fætur öðrum. Staðan var orðin 9-4, Serbíu í vil, þegar Tyrkir skoruðu langþráð sóknarstig sem gaf þeim smá von. Giovanni Guidetti, þjálfari Tyrklands, gerði nokkrar breytingar á liði sínu eftir aðra hrinuna og í upphafi þeirrar þriðju. Þær gengu aldeilis vel upp og jafnaði liðið 15-15.

Guidetti lagði áherslu á að nýta veikleika í móttöku Serba og mátti Bianka Busa líða fyrir það. Undir lok hrinunnar jókst spennan mikið auk þess sem leikmenn og þjálfarar voru orðnir ansi æstir. Serbía náði 22-18 forystu eftir mikla óreiðu á vellinum og Serbarnir tryggðu sér 25-21 sigur í hrinunni.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi fjórðu hrinu en Serbar náðu 8-5 forystu. Þær tyrknesku náðu þá góðum kafla og jöfnuðu 8-8. Ekki dugði það lengi því Serbar náðu 12-9 forystu og Tyrkland tók leikhlé. Rosalegar sveiflur voru fram og til baka í hrinunni og fljótlega var staðan aftur orðin jöfn, 12-12. Serbía hafði jafnan forystuna en Tyrkir voru aldrei langt undan.

Tyrkneska liðið breytti mikið til undir lokin og gekk það frábærlega upp. Þær fengu mikinn kraft í sókn og hávörn og náðu 21-23 forystu. Þær héldu lokastigin út og unnu hrinuna 22-25 og tryggðu sér oddahrinu.

Tyrkir tóku 2-4 forystu í upphafi oddahrinunnar og neyddist Serbía til að taka sitt fyrra leikhlé. Stemningin var öll Tyrkja megin og leiddu þær 6-9 en þá kom áðurnefnd Bianka Busa aftur inn í serbneska liðið. Hún átti frábærar uppgjafir og náði Serbía 11-9 forystu.

Tyrkland náði þá öðrum góðum kafla og náði forystunni, 11-12. Serbar náðu 14-12 forystu áður en Tyrkir minnkuðu muninn í 14-13 en Serbía tryggði sér gullið með því að vinna hrinuna 15-13. Æsispennandi oddahrina í frábærum leik, þar sem að Serbía vinnur gullverðlaun annað Evrópumótið í röð.

Tijana Boskovic skoraði 23 stig fyrir Serbíu og Brankica Mihajlovic bætti við 22 stigum. Meryem Boz var stigahæst í tyrkneska liðinu með 16 stig en Hande Baladin og Zehra Gunes bættu við 11 stigum hvor.

Að leiknum loknum var Tijana Boskovic valin besti leikmaður mótsins en hún var einnig valin best þegar Serbía vann Evrópumótið 2017.

( Mynd fengin af heimasíðu CEV )