[sam_zone id=1]

EM kvenna: Tyrkland og Serbía berjast um gull á morgun

Tyrkir og Serbar mætast í úrslitum evrópumótsins eftir að liðin sigruðu andstæðinga sína í gær. Serbía eru ríkjandi meistarar og geta varið titilinn sinn á meðan Tyrkland er í úrslitum í annað sinn í sögunni en það gerðist síðast árið 2003 þegar þær fengu silfur.

Serbía-Ítalía 3-1 (25-22, 25-21, 21-25, 25-20)
Stigahæstar: Paola Egonu Ítalía 26 stig, Tijana Boskovic Serbía 22 stig

Þessa leiks var beðið með mikilli eftirvæntingu og jafnvel talið að þetta væri hinn raunverulegi úrslitaleikur, en þessi lið áttust við í úrslitum heimsmeistaramótsins í fyrra þar sem Sebía vann eftir hörkuleik 3-2.
Það var ekki sama spenna í boði í dag en liðin voru þó nokkuð jöfn.
Serbía voru þó ávallt sterkari aðilinn og unnu að lokum nokkuð öruggan 3-1 sigur. Ítalir voru að gera of mikið af mistökum og treystu um of á stórstjörnu sína Egonu sem þrátt fyrir að vera stigahæst átti ekki sinn besta leik í dag.

Tyrkland-Pólland 3-1 (25-17, 25-16, 14-25, 25-18)
Stigahæstar: Eda Erdem Tyrkland 19 stig, Malwina Smarzek-Godek Pólland 18 stig

Heimakonur í Tyrklandi mættu frábærlega til leiks vel studdar af sínum frábæru áhorfendum og var stemmningin í höllinni frábær allan tímann. Þær völtuðu yfir þær Pólsku í fyrstu tveim hrinum leiksins áður en þær ákváðu að taka sér frí í næstu hrinu. Þær ætluðu sér hinsvegar ekki að gera leikinn spennandi og unnu fjórðu hrinuna örugglega og tryggðu sér þar með í úrslitin.

Það er ljóst að við munum fá frábæran úrslitaleik en Serbía eru klárlega sigustranglegra liðið. Tyrkland hafa hinsvegar farið langt á stemningunni og með fullt hús áhorfenda á bakinu er aldrei að vita hvað gerist.

Úrslitaleikurinn verður sýndur á RÚV2 og hefst útsending kl: 16:20.

Nánari upplýsingar um mótið má finna hér.