[sam_zone id=1]

Quentin Moore til liðs við Aftureldingu

Afturelding tilkynnti í dag um nýjan leikmann karlaliðs síns en Quentin Moore mun leika með liðinu á komandi tímabili.

Quentin er bandarískur og lék með KA tímabilið 2017-18 og átti þá stóran þátt í því að félagið vann þrennuna frægu. Nú hefur Quentin hins vegar samið við lið Aftureldingar og snýr hann því aftur til Íslands eftir eins árs dvöl í Árósum, Danmörku.

Karlalið Aftureldingar náði í bronsverðlaun í deildarkeppninni síðasta vetur og stefnir eflaust hærra í vetur. Quentin kemur til með að bæta miklum krafti í sóknarleik liðsins en auk þess mun hann einnig koma að þjálfun hjá félaginu. Hann verður spilandi aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki karla og mun koma að þjálfun yngri flokka hjá Aftureldingu. Einnig mun hann gegna hlutverki styrktarþjálfara hjá meistaraflokki karla.

Haustmót BLÍ fer fram helgina 7.-8. september í Varmá og verður að teljast líklegt að þar verði meistaraflokkar Aftureldingar í eldlínunni. Lið nýta mótið oftar en ekki til ýmissa tilrauna og verður fróðlegt að sjá hvernig Afturelding stillir liðum sínum upp á komandi tímabili.

(Mynd fengin af heimasíðu UMFA)