[sam_zone id=1]

,,Ég hef aldrei fundið fyrir neinum fordómum“

Ragnar Ingi Axelsson er 23 ára sveitastrákur fæddur og uppalinn í Neskaupstað. Hann hefur æft blak síðan hann var 8 ára og segir ástæðuna vera að fátt annað hafi verið í boði fyrir austan, þó að hann hafi reynt fyrir sér í fimleikum um skeið.

Hann hefur spilað með U17 og U19 landsliðunum og spilar nú með A landsliðinu í blaki í stöðu frelsingja. Ragnar Ingi fer ekki framhjá neinum, hann lætur vel í sér heyra bæði innan vallar sem utan og leikgleðin skín af honum langar leiðir. 

Hann hefur alltaf vitað að hann væri hommi. ,,Þegar ég var í 4. eða 5. bekk spurði vinkona mín mig hverjum ég væri skotinn í. Ég byrjaði að nefna stelpurnar sem ég var skotinn í og síðan taldi ég upp strákana og fannst það ekkert skrítið. Ég held að fólk mikli það stundum fyrir sér að koma út úr skápnum, þó að auðvitað séu aðstæður mismunandi, en það vissu þetta allir með mig hvort sem er. Þannig að í raun hef ég aldrei komið út úr skápnum,“ segir hann. 

Ragnar fór í nokkrar keppnisferðir með unglingalandsliðunum. ,,Í fyrstu ferðinni sögðu nokkrir strákar mér að þeir væri dálítið stressaðir með þetta, en um leið og þeir kynntust mér þá breyttist það. Þetta hefur aldrei verið neitt vesen og ég hef aldrei fundið fyrir neinum fordómum. Auðvitað fær maður skot inn á milli, en ég hef aldrei tekið það nærri mér. Ég kem reglulega sjálfur með hommabrandara. Mér finnst stundum vera of mikið væl, það má aldrei segja neitt,“ segir Ragnar.

Ragnar byrjaði blakferilinn með Þrótti Neskaupstað en hefur spilað upp á síðkastið með liði Álftaness og var valin frelsingi ársins í uppgjöri Mizunodeildarinnar síðasta tímabil. Hann segir liðsfélagana yfirleitt vera mjög forvitna og að þeir spyrji hann um hvað sem er. ,,Ég er svo opin persóna. Stundum fá þeir meiri upplýsingar en þeir vilja,“ segir Ragnar og hlær. 

Flestir þekkja eflaust til lesbía sem hafa verið í hinum ýmsu landsliðum, en trúlega geta færri nefnt homma í landsliðum, þá sérstaklega í boltagreinum. Ragnar segist ekki vita hver ástæðan sé að auðveldara virðist vera fyrir hinsegin konur en karla að láta til sín taka í íþróttum. ,,Ég veit ekki um neina aðra homma í landsliðum svo ég muni. En ég hef aldrei fundið fyrir neinum fordómum, hvorki í félagsliðum né í landsliðum. Það er allt orðið svo opið í dag, allt annað en þetta var örugglega fyrir 20 árum.“

Aðspurður um skilaboð til hinsegin íþróttafólks segir hann: ,,Maður verður að vera maður sjálfur, annaðhvort ertu með nógu sterkan persónuleika til að samþykkja það hver þú ert almennilega eða ekki. Auðvitað eru sumir mjög ferkantaðir en maður leyfir því fólki bara að þjóta framhjá sér.“ 

Myndir: A & R Photos