[sam_zone id=1]

Mizuno – orðin á götunni

Nú fer óðum að styttast í að Mizunodeild karla og kvenna hefji göngu sína á ný og fer að styttast í að liðin hefji undirbúningstímabil.

Það er því vert að fara yfir þær leikmannabreytingar sem hinn almenni borgari er að ræða á götum landsins og tökum við það fram að þessar breytingar eru flestar hverjar ekki staðfestar heldur er þetta það sem gengur manna á milli.

Mizunodeild karla:

Afturelding

Alexander Stefánsson verður ekki með Aftureldingu í vetur þar sem hann heldur erlendis í nám. Þá gætu Hilmir Berg Halldórsson og Sebastian Sævarsson Myer einnig farið.

Sigþór Helgason og Bjarki Sveinsson kom til liðs við Aftureldingu, Sigþór frá KA og Bjarki frá Álftanesi. Þá eru sögur um að Quentin Moore fyrrum leikmaður KA muni spila með Aftureldingu í vetur. Þá gæti Ragnar Ingi Axelsson leikmaður Álftaness spilað í Mosfellsbæ í vetur.

Afturelding ætti því að vera nokkuð öflugir í vetur en Borja Gonzalez Vicente gekk til liðs við Aftureldingu fyrr í sumar. Þá er gert ráð fyrir því að hinn margreyndi Radoslaw Rybak haldi áfram.

 

Álftanes

Miklar breytingar gætu orðið á liði Álftaness sem sendi inn nokkuð langan leikmannalista síðasta vetur. Bjarki Sveinsson fer til Aftureldingar, Gunnar Pálmi Hannesson er á leið heim til Akureyrar. Óvíst er með marga leikmenn, Valgeir Valgeirsson er spurningamerki, þá er óvíst hvað Ragnar Ingi Axelsson gerir en hann gæti verið á leið í Aftureldingu. Kolbeinn Tumi Baldursson, Janis Novikovs, Martin Marinov gætu róað á önnur mið og þá er ansi líklegt að Ingólfur Hilmar Guðjónsson leggi skóna á hilluna.

Góðar fréttir fyrir Álftanes eru hinsvegar þær að Jordan Darlington kemur til með að spila með liðinu í vetur og þá hafa þeir Matthew Gibson og Ragnar Már Garðarsson ákveðið að spila áfram með liðinu.

 

HK

Ismar Hadziredzepovic leggur skóna á hilluna. Theódór Óskar Þorvaldsson spilar ekki með HK í vetur vegna náms og þá kemur Benedikt Baldur Tryggvason ekki til með að spila með HK fyrir áramót. 

Magnús Ingvi Kristjánsson gæti leikið með liðinu í vetur að nýju og þá gætu Janis Novikovs og Kolbeinn Tumi Baldursson gengið til liðs við HK að nýju eftir nokkra ára fjarveru.

Lið HK mun hinsvegar sakna þeirra Theódórs og Benedikts og verður fróðlegt að sjá hvað nýráðinn þjálfari liðsins gerir til að fylla í þeirra skörð.

 

KA

Stefano Nassini Hidalgo verður ekki áfram í herbúðum KA og þá er óvíst með Mason Casner en hann spilar að öllum líkindum ekki með KA í vetur. Sigþór Helgason yfirgefur liðið og gengur til liðs við Aftureldingu.

Gunnar Pálmi Hannesson snýr aftur til KA eftir nokkra ára fjarveru og þá er orðrómur um að KA sé að fá til sín nýjan spánverja.

 

Þróttur Nes

Galdur Máni Davíðsson verður áfram hjá Þrótti en sögur voru um að hann færi til KA. Þá eru Þróttur að ganga frá samningi við erlendan leikmann sem kemur til með að spila sem díó. Aðrir leikmenn munu að öllum líkindum halda áfram. Hlöðver Hlöðversson gæti þó lagt skóna á hilluna.

 

Mizunodeild kvenna:

Afturelding

Kristina Apostolova verður ekki með Aftureldingu í vetur. Sigdís Sigurðardóttir er farin til Danmerkur og leikur því ekki með Aftureldingu í vetur. Ventseslava Marino gæti yfirgefið liðið og þá er óvíst hvort Karen Björg Gunnarsdóttir haldi áfram.

 

Álftanes

Erla Rán Eiríksdóttir er ólétt og verður fjarverandi í vetur. Óvíst er hvort Álftanes næli sér í nýja leikmenn en mikil óvissa er með þá leikmenn sem spiluðu með liðinu síðastliðinn vetur.

 

HK

HK missir mikilvæga leikmenn en Hjördís Eiríksdóttir, Steinunn Helga Björgólfsdóttir og Elísabet Einarsdóttir verða ekki með liðinu í vetur. Óvíst er með þátttöku Laufeyjar Sigmundsdóttur en hún var að glíma við meiðsli/veikindi síðasta vetur.

Hanna María Friðriksdóttir verður áfram í herbúðum HK og þá gæti Thelma Dögg Grétarsdóttir mögulega gengið til liðs við HK. Særún Birta Eiríksdóttir var komin með aðra löppina í Kópavoginn en hefur ákveðið að flytja til Danmerkur.

KA

Birna Baldursdóttir leggur skóna á hilluna eftir glæsilegan feril. Maria Jose Sanchez verður ekki áfram. Luz Medina og Hulda Elma Eysteinsdóttir halda áfram með KA. Valdís Kapitola Þorvarðardóttir er að öllum líkindum á leið til KA frá Þrótti Nes.

Þróttur Reykjavík

Sunna Þrastardóttir lagði skóna á hilluna um miðjan síðasta vetur en lítið er um aðrar breytingar að vænta hjá Þrótti. Iðunn Bjarnadóttir gæti þó komið til liðsins frá Völsungi en Völsungur teflir ekki fram liði í efstu deild í vetur.

Þróttur Neskaupstað

Fyrirliði Þróttar, Særún Birta Eiríksdóttir flytur til Danmerkur og verður því ekki með í vetur. Ana Maria Vidal Bouza yfirgaf Þrótt fyrr í sumar og því spurningarmerki hvernig Þróttur leysir þá stöðu. Valdís Kapitola Þorvarðardóttir er að öllum líkindum á leið til KA.

Litlar aðrar breytingar eru í vændum hjá Þrótti Nes.