[sam_zone id=1]

Berglind og Elísabet eru Pepsi Max Beach Volley Tour meistarar 2019

Landsliðskonurnar Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir voru rétt í þessu að sigra úrslitaleikinn á lokamótinu í Pepsi Max Beach Volley Tour 2019 mótaröðinni. Elísabet og Berglind mættu Bisgaard og Kollner í úrslitaleiknum og sigruðu þær æsispennandi oddaleik (21-15, 24-26, 13-15).  

Berglind og Elísabet hafa spilað saman í Pepsi Max Beach Volley 2019 túrneringunni í allt sumar. Öll bestu strandblaksliðin í Danmörku eru saman komin til að keppa en það var íslenska parið sem kom sá og sigraði.

Berglind og Elísabet höfðu ekki spilað saman strandblak frá því að þær fengu gull á Smáþjóðaleikunum á Íslandi árið 2015. Síðan þá hefur Elísabet einbeitt sér að inniblaki Berglind hefur lagt meiri áherslu á strandblakið. Þær virðast engu hafa gleymt á þessum fjórum árum því þær eru nú meistarar í efstu deild í Danmörku.

Um næstu helgi í Danmörku verður spilað um Danmerkurtitilinn í strandblaki en þar sem Berglind og Elísabet eru Íslendingar hafa þær ekki keppnisrétt á því móti. Stelpurnar okkar stefna enn hærra og eru þær að fara til Vaduz í Liechtenstein, dagana 7-11 ágúst, að keppa á FIVB Beach Volleyball World Tour móti, fyrst allra íslenskra liða.

Við óskum Berglindi og Elísabetu til hamingju með Pepsi Max Beach Volley Tour 2019 titilinn og óskum þeim góðs gengis í World Tour í Vaduz!