[sam_zone id=1]

Þjóðadeild kvenna: Bandaríkin sigurvegarar eftir frábæra endurkomu gegn Brasilíu

Bandaríkin og Brasilía mættust í dag í úrslitum í þjóðadeild kvenna í Kína. Þessi lið höfðu í gær sigrað Kína og Tyrkland í undanúrslitum. Fyrr í dag höfðu síðan heimakonur í Kína tryggt sér bronsverðlaun með sigri á Tyrklandi 3-1 (25-23, 25-15, 20-25, 25-21).

Brasilía byrjaði leikinn betur í dag og vann fyrstu tvær hrinur leiksins (25-20, 25-22) og voru að spila frábært blak þar sem Gabriela og Lorenne fóru fyrir brasilíska liðinu en þær skoruðu 20 stig hvor fyrir Brasilíu í dag.
Bandaríkin voru þó ekki á því að gefast upp og unnu þær næstu hrinu stórt 25-15. Eitthvað virtist þetta setja Brasilíu út af laginu og héldu Bandaríkin áfram að herja að brasilíska liðinu og unnu þær einnig fjórðu hrinuna 25-21 og tryggðu sér þar með oddahrinu í leiknum.

Oddahrinan var æsispennandi enda titill í húfi fyrir sigurliðið. Liðin sýndu frábært blak í oddahrinunni þar sem barist var um hvern einasta bolta og ljóst að leikmenn beggja liða ætluðu að gefa allt sitt í leikinn.
Það var þó að lokum Bandaríkin sem fullkomnaði endurkomu sína í leiknum með því að vinna oddahrinuna 15-13 og þar með leikinn 3-2.

Besti maður vallarins var Andrea Drews í liði Bandaríkjana en hún fór gjörsamlega á kostum í leiknum og skoraði 33 stig og var lykilmaður í þessari endurkomu Bandaríkjana.

Bandaríkin eru því Þjóðadeildarmeistarar kvenna árið 2019 og óskum við þeim innilega til hamingju með þá nafnbót.

Nánari tölfræði og upplýsingar um mótið má nálgast hér.