[sam_zone id=1]

Kanada og Rússland með gull á HM

HM í strandblaki lauk í dag þar sem keppt var í bæði karla- og kvennaflokki.

Mótið fór fram í Hamburg í Þýskalandi við frábærar aðstæður en keppnisvöllurinn tekur um 12.000 manns sem sköpuðu stórkostlegt andrúmsloft á leikjum keppninnar. Í karlaflokki komst þýskt par alla leið í úrslitaleikinn en þurfti að sætta sig við silfur.

Í kvennaflokki börðust Bandaríkin og Kanada um titilinn og einnig montréttinn í N-Ameríku. Þar mættu hinar kanadísku Sarah Pavan / Melissa Humana-Paredes bandaríska parinu Alex Klineman / April Ross. Pavan/Melissa höfðu unnið alla leiki sína fram að úrslitaleiknum en Klineman/Ross töpuðu einum leik í riðlakeppninni.

Úrslitaleikurinn bauð upp á ótrúlega spennu þar sem að báðar hrinurnar fóru í upphækkun en þeim lauk báðum með 23-21 sigri þeirra kanadísku sem eru því heimsmeistarar árið 2019. Jafnt var á flestum tölum í leiknum en Pavan/Melissa gerðu einungis 4 mistök í leiknum gegn 10 mistökum Klineman/Ross og gerði það gæfumuninn. Kanada hafði aldrei áður unnið til verðlauna á HM í strandblaki, hvorki í karla- né kvennaflokki.

Í bronsleiknum mættust Clancy/Artacho Del Solar frá Ástralíu og Betschart/ Hüberli frá Sviss. Clancy/Artacho Del Solar unnu fyrstu hrinuna 18-21 en í annarri hrinu var enn meiri spenna. Bæði lið léku vel og skiptust á stigum þar til að þær áströlsku tryggðu sér 22-20 sigur í hrinunni og þar með bronsverðlaunin en þetta voru fyrstu verðlaun pars frá Ástralíu á HM síðan 2003.

Í karlaflokki var evrópskur úrslitaleikur þar sem heimamennirnir Julius Thole / Clemens Wickler mættu Oleg Stoyanovskiy / Viacheslav Krasilnikov frá Rússlandi. Þjóðverjarnir slógu norsku stórstjörnurnar Mol/Sørum út í undanúrslitum en bæði lið fóru taplaus inn í úrslitin. Bæði lið höfðu einungis tapað einni hrinu á mótinu, Rússarnir gegn Bourne/Crabb en Þjóðverjarnir gegn Norðmönnunum Mol/Sørum.

Heimamennirnir byrjuðu úrslitaleikinn betur og unnu fyrstu hrinuna 21-19 eftir mikla spennu. Rússarnir voru þó fljótir í gang og sýndu styrk sinn í annarri hrinunni. Þeir unnu hana nokkuð sannfærandi, 17-21, og héldu áfram af krafti í oddahrinunni. Þar unnu þeir 11-15 og tryggðu heimsmeistaratitilinn.

Stoyanovskiy er yngsti leikmaðurinn til að verða heimsmeistari í strandblaki en hann er einungis 22 ára og 9 mánaða gamall. Félagi hans, Krasilnikov, vann til bronsverðlauna á HM 2017 en fór alla leið í þetta skiptið og sótti gullið.

Í bronsleik karla mættust Mol/Sørum frá Noregi og Bourne/Crabb frá Bandaríkjunum. Bourne/Crabb unnu fyrstu hrinuna 19-21 eftir mikla baráttu en Norðmennirnir tóku næstu hrinu 21-15. Í oddahrinunni voru Mol/Sørum einnig sterkari og unnu 15-10. Þeir tryggðu þar með bronsverðlaun í sínu fyrsta heimsmeistaramóti.