[sam_zone id=1]

Pólverjar í lokaúrslit VNL karla

Síðasta umferð VNL karla fór fram um helgina og tryggðu Pólverjar sér sæti í lokaúrslitunum með þremur sigrum.

Eftir þessa helgi hafa öll lið mæst einu sinni og þar með leikið 15 leiki. Brasilía stóð sig best allra en lið þeirra vann 14 leiki og tapaði einungis einum. Íran og Rússland voru í 2. og 3. sæti með 12 sigra hvort og á eftir þeim komu Pólland og Frakkland með 11 sigra hvort. Bandaríkin, sem halda lokaúrslitin, luku keppni í 6. sætinu en höfðu nú þegar tryggt sér keppnisrétt í úrslitunum sem mótshaldarar.

Þar sem að Bandaríkin luku keppni í 6. sætinu mætast þau 6 lið með besta árangurinn í sumar í lokaúrslitunum í Chicago dagana 10.-14. júlí. Argentína, Ítalía og Kanada sitja eftir með 8 sigra hvert.

Þrír leikmenn skoruðu meira en 200 stig í þessum 15 leikjum liða sinna en það voru Yuji Nishida (Japan – 220 stig), Amir Ghafour (Íran – 208 stig) og Simon Hirsch (Þýskaland – 204 stig). Ghafour var jafnframt með bestu sóknarnýtinguna en hann skoraði úr 57.73% sókna sinna.

Hinn kanadíski Graham Vigrass var öflugastur allra í hávörn með 29 stig beint úr hávörn. Hann var einnig með hæsta meðaltal hávarna fyrir spilaðar hrinur. Fyrrnefndur Yuji Nishida var stigahæstur úr uppgjöf en hann skoraði 23 ása í keppninni.

Lokaúrslitin verða leikin á 5 dögum en skipt er upp í tvo riðla til að byrja með. Í A-riðli verða Bandaríkin, Rússland og Frakkland en í B-riðli verða Brasilía, Íran og Pólland. Neðsta lið hvors riðils fellur úr keppni en hin fjögur leika til undanúrslita. Úrslitaleikurinn og bronsleikurinn fara svo fram sunnudaginn 14. júlí.

Á fyrsta degi lokaúrslitanna mætast annars vegar Brasilía og Pólland en hins vegar Bandaríkin og Frakkland. Riðlakeppnin er leikin fyrstu þrjá dagana og svo hefðbundið Final Four um helgina, laugardag og sunnudag.

Allar helstu upplýsingar um lokaúrslitin má finna með því að smella hér.

(Mynd fengin af heimasíðu FIVB)