[sam_zone id=1]

Allt í járnum fyrir lokaleiki VNL karla

Fjórða leikvika Volleyball Nations League karla fór fram um helgina og er baráttan um sæti í lokaúrslitum ansi hörð.

Brasilía komst aftur á topp deildarinnar með því að sigra alla leiki sína en Íran tapaði einnig gegn Frakklandi um helgina. Þar með hafa Brasilíumenn einungis tapað einum leik en Íran hefur tapað tveimur. Fyrir utan þessi tvö lið eru Frakkar og Rússar einnig í góðum málum í 3. og 4. sætinu en þau hafa unnið 9 leiki og tapað þremur.

Þar sem að Bandaríkin halda lokaúrslitin fær lið þeirra þáttökurétt þar en þeir sitja nú í 7. sætinu með 7 sigra og 5 töp. Ef Bandaríkin ljúka keppni í 7. sæti eða neðar fara 5 efstu liðin með þeim í úrslitin og er baráttan mikil þar. Ítalir og Pólverjar munu líklega berjast um síðasta sætið í úrslitunum en þau eru í 5.-6. sæti með 8 sigra og fjögur töp.

Pólverjar eiga þó töluvert auðveldari riðil næstu helgi en þar mæta þeir Portúgal, Japan og Þýskalandi. Ítalir mæta Kanada, Frakklandi og Brasilíu sem gæti reynst erfið törn. Pólverjar og Ítalir mættust einmitt á sunnudag en þar náði Pólland í 3-2 sigur eftir ótrúlega oddahrinu sem lauk 25-23. Lengd leiksins var 2 klukkustundir og 46 mínútur en Pólland tryggði gríðarlega mikilvægan sigur og eru til alls líklegir.

Stöðutöflur og ýmsar fleiri upplýsingar má nálgast með því að smella hér. Síðasta leikvikan fer fram næstu helgi en lokaúrslitin fara svo fram dagana 10.-14. júlí.