[sam_zone id=1]

Íran á toppinn

Lið Íran gerði sér lítið fyrir og lyfti sér á topp VNL karla með þremur sigrum um helgina.

Þriðju leikviku Volleyball Nations League í karlaflokki lauk á sunnudagskvöld og náði Íran að taka toppsætið af Brasilíu. Íran vann alla þrjá leiki sína um helgina en einn sigranna kom gegn heimsmeisturum Póllands. Brasilía tapaði einnig sínum fyrsta leik en þeir máttu sætta sig við 2-3 tap gegn Serbíu.

Nú situr Íran í toppsætinu með 8 sigra og eitt tap en Brasilía hefur einnig unnið 8 leiki. Íranir eru hins vegar með 24 stig gegn 22 stigum Brasilíu. Ítalía og Rússland koma þar skammt á eftir með 7 sigra en Frakkland hefur unnið 6 leiki. Bandaríkin, Pólland og Serbía hafa öll unnið 5 leiki en Bandaríkjamenn þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur þar sem þeir halda lokaúrslitin og fá því alltaf úthlutað sæti þar, sama hvert gengi þeirra verður.

Eins og staðan er núna verða liðin í lokaúrslitunum eftirfarandi :

Íran – Brasilía – Ítalía – Rússland – Frakkland – Bandaríkin

Tveimur leikvikum er þó enn ólokið svo að hvert lið á 6 leiki eftir. Það getur ýmislegt breyst í svo mörgum leikjum en sterk lið Pólverja og Serbíu þurfa hins vegar að standa sig betur til að eiga raunhæfa möguleika á sæti í lokaúrslitunum.

Hingað til hafa þrír leikmenn staðið öðrum framar í stigaskorun en það eru þeir Sharone Vernon-Evans (Kanada – 158 stig), Gabriele Nelli (Ítalía – 157 stig) og Amir Ghafour (Íran – 151 stig). Hinn brasilíski Lucarelli er með bestu sóknarnýtinguna (57,93%) og Mohammed Seyed er atkvæðamestur í hávörn (22 stig úr hávörn). Egor Kliuka hefur farið á kostum með uppgjafir sínar (20 ásar) og hinn argentínski Santiago Danani er með bestu móttökuna það sem af er móti.