[sam_zone id=1]

VNL 2019 farið af stað

Þjóðardeild FIVB, eða Volleyball Nations League, er í fullum gangi þessa dagana um allan heim.

Deildin er ætluð öflugustu landsliðum heims og taka 16 þjóðir þátt í bæði karla- og kvennaflokki. Leikið er í riðlum sem eru breytilegir milli vikna svo að öll lið mætast einu sinni. Fjögur lið eru í hverjum riðli fyrir sig svo alls leikur hvert lið 15 leiki á 5 vikum. Kvennaleikirnir fara almennt fram þriðjudaga til fimmtudags og þá taka karlaleikir við, föstudag til sunnudags.

Yngri leikmenn fá oft tækifæri með landsliðum sínum í þessari keppni en stórstjörnur liðanna fá þá kærkomna hvíld eftir erfið tímabil. Þegar líða fer á keppnina koma stóru nöfnin svo smám saman inn en skemmtilegt er að fylgjast með nýju leikmönnunum sem fá tækifæri. Mótið hefur verið stökkpallur fyrir nokkra sterka leikmenn en sama mátti segja um World League, forvera Þjóðardeildarinnar.

Þegar öll lið hafa leikið innbyrðis er svo komið að lokaúrslitum. Þar keppa 5 bestu lið keppninnar, auk gestgjafa. Í kvennaflokki fara úrslit fram í Nanjing, Kína dagana 3.-7. júlí. Úrslit karla fara hins vegar fram í Chicago, Bandaríkjunum dagana 10.-14. júlí. Áhugasamir geta nálgast miða hér en því miður eru ekki fáanlegir miðar á alla riðlana í gegnum þennan hlekk.

Kvennaflokkur

Í kvöld lauk fjórðu viku kvennadeildarinnar og eftir hana eru Ítalir og Tyrkir á toppnum með 10 sigra úr 12 leikjum. Ítalía er á toppnum með 31 stig en Tyrkland í 2. sætinu með 29 stig. Þessi lið mætast í Tyrklandi í lokavikunni og auk þeirra er lið Brasilíu í riðlinum. Brasilía situr í 3. sætinu með 9 sigra og 28 stig. Þar verður því hart barist um efstu sætin.

Karlaflokkur

Karladeildin hófst seinna en kvennadeildin og um helgina hefst þriðja leikvika þeim megin. Lið Brasilíu er ósigrað í karlaflokki en þeir hafa unnið alla 6 leiki sína. Næst þeim koma lið Íran, Frakklands og Rússlands en þau hafa öll unnið 5 leiki. Áhugavert er að bæði Frakkland og Íran eru með 16 stig gegn 15 stigum Brasilíu þar sem að Brasilía hefur þrisvar þurft oddahrinu til að knýja fram sigur. Sigrar telja þó hærra en stig í keppninni og sitja þeir því í toppsætinu.

Öll úrslit og stigatöflur má nálgast með því að smella hér en á heimasíðu keppninnar má einnig nálgast beinar lýsingar og beinar útsendingar. Útsendingarnar má nálgast gegn vægu gjaldi.

(Mynd fengin af heimasíðu FIVB)