[sam_zone id=1]

Karlarnir töpuðu gegn San Marínó

Íslenska karlalandsliðið í blaki tók á móti San Marínó á Smáþjóðaleikunum í dag. Ísland tapaði gegn Svartfjallalandi í gær 3:1 og San Marínó tapaði 3:0 fyrir Kýpur.

Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Hafsteini og Kristjáni Valdimarssonum á miðjunum, Theódóri Óskari Þorvaldssyni og Ævari Frey Birgissyni á köntunum, Bjarka Benediktssyni í díó, Mána Matthíassyni í uppspil og Ragnari Inga Axelssyni í stöðu frelsingja.   

Liðin skiptust á stigum í byrjun fyrstu hrinu en smám saman gáfu strákarnir okkar í og voru komnir 11:7 yfir þegar andstæðingarnir tóku leikhlé. Íslensku strákarnir héldu forskoti út hrinuna og unnu hana 25:21. 

Önnur hrina byrjaði svipað og fyrsta hrina en fljótlega náði San Marínó þriggja stiga forskoti sem íslenska liðið náði ekki að éta upp. San Marínó hélt áfram að auka forskotið og kláraði hrinuna 25:19.

Ísland byrjaði þriðju hrinu illa og voru undir 4:0 þegar þeir tóku leikhlé. San Marínó menn héldu ágætu forskoti út hrinuna og þrátt fyrir ágætis kafla hjá íslenska liðinu dugði það ekki til og San Marínó vann 25:21.

Fjórða hrina virtist ætla að þróast svipað og þriðja þegar San Marínó komst í 5:0. Íslenska liðið náði að saxa á forskotið um miðbik hrinunnar en þá komst San Marínó aftur í gang og kláraði hrinuna 25:20 og þar með leikinn 3:1.

Stigahæstir í íslenska liðinu voru Theódór Óskar Þorvaldsson með 15 stig og Ævarr Freyr Birgisson með 13.

Íslenska liðið mætir Lúxemborg á morgun kl. 14 (ísl).