[sam_zone id=1]

Fór fyrst á Smáþjóðaleika fyrir 20 árum

Íslenski Smáþjóðaleikahópurinn, lenti í höfuðborg Svartfjallalands um 22 í gærkvöldi að staðartíma. Síðan tók við klukkustunda rútuferð til Budva, sem er strandbær þar sem hópurinn dvelur á meðan á leikunum stendur.

Kvennalandsliðið fékk litla hvíld, en þær voru mættar á æfingu klukkan 9 í morgun í keppnishöllinni, sem er í um 15 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu. Karlalandsliðið æfði klukkan 15 á sama stað. 

Hulda Elma Eysteinsdóttir er aldursforseti íslenska kvennaliðsins og er á sínum 6. Smáþjóðaleikum. Fyrsta landsliðsferðin hennar var á Smáþjóðaleikana í Liectenstein 1999, þá 16 ára. Hún hefur ekki verið í landsliðinu undanfarin ár en spilaði síðast landsleik á Smáþjóðaleikunum 2013. 

Hún segir það rosalega gaman að vera komin aftur í landsliðið og lýst mjög vel á hópinn. ,,Þetta er mikið af ungum og efnilegum stelpum sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni. Þetta er vel samstilltur hópur og ekkert vesen í gangi.”

Aðspurð um skemmtilegustu Smáþjóðaleika sem hún hefur farið á, hlær hún og segir það vera svo langt síðan hún fór á suma þeirra að hún hreinlega muni það ekki, en nefnir leikana í Lúxemborg 2013. ,,Ég man þó allavega eftir þeim.”

Henni lýst vel á Svartfjallaland. ,,Keppnishöllin hefur allt sem við þurfum. Góður dúkur, fín ljós og góð lofthæð. Síðan er þorpið mjög skemmtilegt. Gaman að allir þátttakendur séu á sama svæðinu. Mér sýnist svartfellingar ætla að gera þetta vel.”

En hvað finnst Elmu um blakþróun á Íslandi undanfarin ár? ,,Mér finnst leikmenn almennt orðnir tæknilega betri. Þjálfarar hugsa miklu meira um taktík í dag en þeir gerðu hér áður fyrr. En til þess að efla blak á Íslandi þurfum við fyrst og fremst að fá fleiri krakka í blak, meira umtal og betri umgjörð, þá smám saman komumst við á næsta stig. Hún segir blak á Íslandi vera á allt öðrum stað en fyrir 10 árum, en að þróunin megi vera hraðari. ,,Við gætum verið komin ennþá lengra. En auðvitað er margt að keppa við og erfitt að ná inn krökkum í dag.”

Elma segir raunhæft að kvennaliðið nái silfri á mótinu. ,,Auðvitað stefnir maður alltaf á gullið, allt annað væri mjög skrítið. En silfur er mjög raunhæft. Ég held að Svartfjallaland sé með það sterkt lið að við getum ekki sett okkur í sama klassa og þær. Sérstaklega af því að við höfum lítið spilað saman sem lið. Lúxemborg er líka yfirleitt með mjög gott lið, en maður veit ekki hvernig þær eru núna.”

Hún segir að í öll þau skipti sem hún hafi farið á Smáþjóðaleika hafi liðið alltaf ætlað að gera mjög mikið og væntingarnar verið miklar. ,,Ég er eiginlega komin yfir það núna að búast við einhverju rosalegu, frekar að fara og spila eins vel og maður getur og sjá hvað gerist.”

Íslenska kvennaliðið spilar sinn fyrsta leik á mótinu á morgun, þriðjudaginn 28. maí, kl. 07:00 (íslenskur tími) á móti Kýpur og karlarnir spila kl. 14 gegn Svartfellingum.

Enn er ekki komið á hreint hvort leikjunum verði streymt beint.