[sam_zone id=1]

,,Ég kom til Íslands til að vinna medalíu‘‘

Smáþjóðaleikarnir sem fara fram í Svartfjallalandi eru rétt handan við hornið. Ferðalagið hefst á morgun og spila liðin sína fyrstu leiki á þriðjudaginn. Við hittum á þjálfara og fyrirliða liðanna og könnuðum stemninguna fyrir keppninni.

Hafsteini Valdimarssyni, fyrirliða liðsins, lýst mjög vel á hópinn og segir liðið vera blöndu af yngri og eldri, reyndari leikmönnum. ,,Æfingarnar hafa gengið vel. Við höfum aðalega verið að spila og æfa okkur í að spila saman. Við erum nokkurn veginn búnir að læra að spila þessi kerfi sem Christophe vill að við spilum núna. Þetta eru einhver smáatriði sem við þurfum að fínpússa,” segir hann. 

Varðandi styrkleika og veikleika liðsins segir Hafsteinn einn styrkleika liðsins vera hæðina. ,,Í gegnum tíðina höfum við verið með mjög hávaxið lið og fyrirfram ætti sókn og hávörn að vera sterkasti hluti liðsins. En þú færð það ekki nema vera með góða móttöku og vörn. Núna held ég að helsti veikleikinn sé hugarfarið. Þó að stemningin í hópnum sé mjög góð, þá er orðið langt síðan við unnum leik. Við þurfum að hafa trú á okkur.”

Hafsteinn segir að markmiðið fyrir keppnina sé að vinna verðlaun og að það hafi alltaf verið markmiðið síðan að Christophe tók við liðinu. ,,Við þurfum allavega að vinna þrjá leiki til að komast á pall. Fyrirfram eigum við að vera svipaðir og trúlega aðeins betri en San Marínó og Mónakó. Síðan höfum við verið að tapa fyrir Lúxemborg og Kýpur síðustu ár. En við eigum að vera með svipuð lið. Markmiðið er að komast á pall, ég tel það raunhæft,” segir fyrirliðinn. 

Christophe Achten, þjálfari liðsins, segir æfingar hafa gengið vel. ,,Við ræddum við leikmenn í byrjun árs um hvernig best væri að haga undirbúningi. Það er nauðsynlegt að heyra hljóðið í leikmönnum um hvað hentar best inn í þeirra æfingarútínu. Formið mætti vera aðeins betra. Við hefðum þurft tvær vikur í viðbót fyrir fullkomið undirbúningstímabil, en við gerum það besta úr þessu. Ég er mjög ánægður.”

Um það hvernig liðið sé að slípast til segist Christophe sjá miklar framfarir. ,,Um síðustu helgi var hópefli sem var mjög gott. Síðan þurftum við að skera niður hópinn. Það var erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið sem þjálfari, því þeir voru allir svo jafnir. En þessir ungu strákar eru hörkuduglegir og hafa verið með á æfingum frá byrjun. Þetta eru strákarnir sem munu leiða liðið eftir nokkur ár.”

Christophe segir helsta veikleika liðsins vera sá að þeir átti sig ekki á því hversu vel þeir geti spilað. ,,Styrkleikinn er hvað við erum með breiðan hóp af mismunandi leikmönnum. Það er engin stjarna í liðinu. Allir þurfa að spila vel og hafa metnað.”

Hann segist halda að Svartfjallaland sé með sterkasta liðið í keppninni. ,,Ég hef trú á að þeir taki gullið. En raunhæft markmið hjá okkur er að komast á pall. Ég kom til Íslands til að vinna medalíu,” segir þjálfarinn að lokum.  

Leikir liðsins á Smáþjóðaleikunum:

28.maí: Svartfjallaland – Ísland, kl. 16:00

29.maí: Ísland – San Marínó, kl. 16:00

30.maí: Lúxemborg – Ísland, kl. 16:00

31.maí: Ísland – Mónakó, kl: 16:00

01.júní: Kýpur – Ísland (tímasetning óákveðin)

Tímasetningar eru að staðaríma, tveimru tímum á undan Íslandi.

Ekki er enn vitað hvort leikjunum verði streymt beint, en þegar við vitum það vitið þið það.