[sam_zone id=1]

Styttist í Smáþjóðaleika

Á sunnudag halda landsliðin í blaki til Svartfjallalands á Smáþjóðaleikana. Við hittum á fyrirliða og þjálfara liðanna til að heyra hvernig stemningin fyrir leikunum væri.  

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, fyrirliði kvennaliðsins lýst mjög vel á hópinn. ,,Það er fullt af talent í þessum hóp og miklar framfarir hafa orðið hjá yngri leikmönnunum. Það er allt annað að sjá þennan hóp núna frá því í haust þegar þetta gekk svona upp og niður hjá okkur. Síðan skiptir það sköpum að fá Valal inn núna sem gerir svaka mikið fyrir hópinn,” segir Jóna. 

Um samsetningu liðsins segist hún vera ánægð að sjá reynslumikla leikmenn vera komna aftur og nefnir þar sem dæmi Huldu Elmu, Velinu og Helenu. ,,Við náum svaka vel saman sem er klárlega að fara að nýtast okkur. Þetta er að fara að vera ógeðlega skemmtilegt.”

Aðspurð um helstu styrkleika og veikleika liðsins segir hún að liðið þurfi að vinna mikið með móttökuna, en sóknar- og hávarnarlega séð séu þær sterkar. 

En hvert er markmiðið? ,,Auðvitað langar okkur að vinna og við erum klárlega með liðið til þess, en þá þarf líka allt að ganga upp. Ég býst við að Svartfjallaland sé með mjög sterkt lið eins og þær hafa yfirleitt verið með, en þetta verður ógeðslega spennandi. Fylgist þið með okkur! You wont be disappointed,” segir fyrirliðinn að lokum. 

Þjálfari liðsins, Borja Gonzalez Vicente, segir að æfingar liðsins hafi gengið vel. Leikmenn séu þó orðnir þreyttir, enda einungis mánuður sem liðið hefur haft til undirbúnings og því æft eins mikið og mögulegt er. ,,Við æfum meira en þrjá tíma á dag og einungis einn frídagur í viku.”

Hann segir aðaláherslan á æfingum hafa verið á móttöku. Einnig hafi miðjurnar fengið mikla athygli enda margir af þeim í yngri kantinum. Helstu styrkleikar liðsins segir hann vera breidd á köntunum. Þar hafi hann af nógu að taka af öflugum sóknarmönnum. 

Aðspurður um markmið segir hann hiklaust: ,,Gull! Ef við spilum vel getum við unnið. Svartfjallaland er trúlega sterkasta liðið en ég er mjög bjartsýnn,” segir Borja að lokum.

Leikir liðsins á mótinu eru eftirfarandi:

28.maí: Kýpur – Ísland, kl. 09:00

29.maí: Ísland – San Marínó, kl. 13:00

30.maí: Lúxemborg – Ísland, kl. 13:00

31.maí: Liechtenstein – Ísland, kl. 09:00

01.júní: Ísland – Svartfjallaland (ekki komin tímasetning)

Tímasetningar eru að staðartíma, tveimur tímum á undan Íslandi.

Ekki er enn vitað hvort leikjunum verði streymt, en þegar við vitum það munið þið vita það.

Heimasíða Smáþjóðaleikana í Svartfjallalandi 2019