[sam_zone id=1]

Meistaradeildin: Tvöfaldur ítalskur sigur

Það var tvöfaldur ítalskur sigur í meistardeildinni um helgina þegar Novara og Lube Civitanova unnu bæði 3-1 sigur í úrslitaleikjunum sem fram fóru í Berlín á Laugardaginn.

Það voru konurnar sem að hófu leik í alítölskum úrslitaleik en þær mættu Conegliano sem eru nýkrýndir ítalskir meistarar og því voru þær taldar sigurstranglegri fyrir leikinn.
Það voru hinsvegar Novara sem að komu mun ákveðnari til leiks og leiddu þær alla fyrstu hrinuna og unnu að lokum öruggan sigur 25-18. Þær héldu svo áfram að hamra á járninu á meðan það var heitt og komust fljótt í góða forystu í annari hrinunni, Conegliano veittu þó smá keppni í lok hrinunnar en það dugði ekki til og Novara leiddar áfram af hinni frábæru Paolo Egonu unnu aðra hrinuna einnig 25-17.

Þarna voru Conegliano komnar með bakið upp við vegg og máttu ekki tapa annari hrinu, það virtist vera það sem þurfti til að kveikja á þeim en þær vöknuðu heldur betur til lífsins í þessari hrinu. Þær leiddu allan tíman og eftir tvær frábærar hrinur hjá Novara voru þær algjörlega heillum horfnar en Conegliano spiluðu hins vegar frábærlega og það skilaði sér í sigri 25-14.
Conegliano komnar með blóð á tennurnar og komu þær ákveðnar inn í fjórðu hrinuna en Novara höfðu engan áhuga á að fara með þennan leik í oddahrinu. Það skilaði sér í jöfnustu hrinunni til þessa en á endanum voru það Novara sem voru sterkari og unnu 25-22 og tryggðu sér þarmeð sigur 3-1 og meistardeildartitilinn.

Eins og áður segir þá var það hin unga Paolo Egonu sem var frábær í liði Novara en hún skoraði 27 stig í leiknum og fékk fyrir það nafnbótina maður leiksins. Það er einnig vert að minnast á það að Francesca Piccinini var að vinna sinn 7. meistardeildartitil, hreint út sagt stórkostlegur áragnur hjá þessari mögnuðu íþróttakonu.
Hjá Conegliano var það Carsta Lowe sem var stigahæst með 16 stig.

Karlarnir spiluðu síðan á eftir stelpunum og voru það Lube Civitanova sem voru nybúnir að vinna ítalska meistaratitilinn sem að mættu evrópumeisturum síðustu þriggja ára Zenit Kazan.

Fyrsta hrinan byrjaði mjög vel fyrir Zenit en þeir komust fljótt í góða forystu sem að Lube náði aldrei að brúa en þeir unnu fyrstu hrinuna 25-16 og voru örugglega margir sem að hugsuðu þarna að Zenit myndu sigla enn einum titlinum í hús.

Lube menn voru hinsvegar fljótir að jafna sig og byrjuðu aðra hrinuna jafn vel og þeir byrjuðu þá fyrstu illa. En leikar snerust alveg við og voru Lube með öll völd á vellinum og unnu aðra hrinuna örugglega 25-15.
Til að gera langa sögu stutta þá sáu Zenit menn aldrei til sólar eftir þetta því að Lube leit aldrei til baka og hreinlega valtaði yfir meistara Zenit sem voru algjörlega heillum horfnir eftir fína fyrstu hrinu. En Lube unnu þriðju hrinuna 25-12 og þá fjórðu 25-19.

Það verður að segjast að það kom á óvart að engin hrina hafi verið spennandi og þessi leikur fer væntanlega ekki í sögubækurnar sem einn sá skemmtilegasti en það verður ekki tekið af Lube að eftir fyrstu hrinuna að þá spiluðu þeir frábært blak og eiga þennan sigur fyllilega skilið.
Osmany Juantorena var besti maður vallarins en hann skoraði 14 stig en þetta er í þriðja sinn sem að hann vinnur meistaradeildina. Annars átti Tsvetan Sokolov einnig mjög góðan leik en hann var stigahæstur með 17 stig. Hjá Zenit var það frakkinn skrautlegi Earvin N’Gapeth sem var stigahæstur með 14 stig.