[sam_zone id=1]

Besti leikmaður Mizuno-deildar kvenna

Eins og á síðasta ári höfum við hjá blakfréttum ákveðið að gera upp tímabilið hér á síðunni með því að velja lið og leikmenn ársins í efstu deild karla og kvenna. Það eru fréttaritarar síðunnar sem sjá um valið og ætlum við hér á næstu dögum að velja bestu leikmenn deildanna ásamt því að velja lið ársins.

Nú er komið að því að birta hver varð fyrir valinu sem besti leikmaður deildarinnar. Valið fór þannig fram að hver fréttaritari valdi topp 3 fyrir sig og fengu leikmenn stig eftir því. Við munum síðan birta okkar topp 3 hér að neðan.

3. sæti: Rut Gomez, Völsungur
Rut kom eins og stormsveipur inn í deildina og var lykilmaður í liði Völsungs sem átti mjög gott tímabil í ár. Liðið fór í undanúrslit bæði í Íslandsmótinu og bikarnum og átti hún mikin þátt í að koma liðinu þangað.
Hún var annar stigahæsti leikmaður deildarinnar með 403 stig og átti hún í heildina frábært tímabil með Völsungi.

2. sæti Luz Medina, KA
Kom inn í lið KA á miðju tímabili og hefur verið algjörlega frábær síðan þá. Hún á mikin þátt í því að KA-stúlkur unnu alla titla tímabilsins og var meðal annars valin besti leikmaður bikarúrslitanna. Hún stjórnaði spili KA frábærlega í vetur og var einnig með frábærar uppgjafir en hún var með 0,8 ása að meðatali í hrinu sem var það næstbesta í deildinni. Hún breytti liði KA úr góðu liði í frábært lið.

1. sæti Elísabet Einarsdóttir, HK
Kom inn í lið HK fyrir tímabilið eftir að hafa leikið í Sviss árið áður. Hún kom inn í deildina af miklum krafti staðráðin í að sýna sínar bestu hliðar og hjálpa liði sínu HK. Hún var m.a. stigahæsti leikmaður deildarinnar í vetur með 435 stig. Hún var einnig á topp 5 lista yfir flesta ása og flestar uppgjafir sem sýnir vel hversu góður alhliða leikmaður Elísabet er.

Við óskum Elísabetu innilega til hamingju með þessa nafnbót.

Aðrir sem fengu atkvæði: Paula Del Olmo Gomez, KA, Helena Kristín Gunnarsdóttir, KA, Erla Rán Eiríksdóttir, Álftanes.

Mynd frá A & R Photos.
Elísabet er leikmaður ársins