[sam_zone id=1]

Besti þjálfarinn í Mizuno-deild kvenna

Eins og á síðasta ári höfum við hjá blakfréttum ákveðið að gera upp tímabilið hér á síðunni með því að velja lið og leikmenn ársins í efstu deild karla og kvenna. Það eru fréttaritarar síðunnar sem sjá um valið og ætlum við hér á næstu dögum að velja bestu leikmenn deildanna ásamt því að velja lið ársins.

Nú er komið að því að birta hver varð fyrir valinu sem besti þjálfari deildarinnar. Valið fór þannig fram að hver fréttaritari valdi topp 3 fyrir sig og fengu leikmenn stig eftir því. Við munum síðan birta okkar topp 3 hér að neðan.

3. sæti: Sladjana Smiljanic, Völsungur
Sladjana hefur náð frábærum árangri á stuttum tíma á Húsavík, hún hefur byggt upp meistaraflokk kvenna þar en í ár náðu þær frábærum árangri. Liðið endaði í fjórða sæti deildarinnar og komst bæði í undanúrslit í bikarnum og í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

2. sæti Miguel Mateo Castrillo, KA
Mateo tók við KA liðinu fyrir þetta tímabil en árin á undan hafði liðið verið meðal neðstu liða deildarinnar. Liðið var mikið breytt frá síðustu árum og náði Mateo að byggja upp frábæra liðsheild og öflugasta lið landsins sem vann alla titla sem í boði voru.

1. sæti Emil Gunnarsson, HK
Það munaði ekki miklu á efstu tveimur sætunum en Emil er besti þjálfari tímabilsins þetta árið.  Emil hefur þjálfað HK síðastliðinn ár með frábærum árangri. Emil var með ungt lið í höndunum þetta árið en náði þrátt fyrir það að veita KA verðuga samkeppni í ár. Hann vann meistarar meistarana í byrjun vetrar og fékk silfur með HK í öllum hinum keppnum ársins og er vel að þessu kominn.

Við óskum Emil innilega til hamingju með þessa nafnbót.

Aðrir sem fengu atkvæði:
Borja Gonzalez Vicente, Þróttur Nes. Ingólfur Hilmar Guðjónsson, Þróttur R.

Mynd frá A & R Photos.
Emil er þjálfari ársins