[sam_zone id=1]

Besti þjálfarinn í Mizuno-deild karla

Eins og á síðasta ári höfum við hjá blakfréttum ákveðið að gera upp tímabilið hér á síðunni með því að velja lið og leikmenn ársins í efstu deild karla og kvenna. Það eru fréttaritarar síðunnar sem sjá um valið og ætlum við hér á næstu dögum að velja bestu leikmenn deildanna ásamt því að velja lið ársins.

Nú er komið að því að birta hver varð fyrir valinu sem besti þjálfari deildarinnar. Valið fór þannig fram að hver fréttaritari valdi topp 3 fyrir sig og fengu leikmenn stig eftir því. Við munum síðan birta okkar topp 3 hér að neðan.

3. sæti: Matt Gibson, Álftanes
Álftanes var nýtt lið í deildinni í vetur en liðið er að mestu byggt upp á blakdeild Stjörnunnar. Álftanes missti fyrir tímabilið marga lykilmenn frá síðasta tímabili. Liðið náði þó góðum árangri í vetur og var hápunkturinn þegar liðið komst í úrslitaleikinn í Kjörísbikarnum þar sem liðið tapaði að lokum gegn verðandi meisturum KA.

2. sæti Massimo Pistoia, HK
Massimo stjórnaði liði HK í vetur eins og síðustu ár. Lið HK fékk nokkuð af nýjum leikmönnum til sín fyrir veturinn og þurfti Massimo að koma þeim öllum inn í sinn leik. Liðið átti þó mjög gott tímabil, liðið endaði í öðru sæti í deildarkeppninni og einnig í öðru sæti í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem liðið tapaði fyrir KA í æsispennandi fimm leikja einvígi.

1. sæti Filip Szewczyk, KA
Það munaði ekki miklu á efstu tveimur sætunum en Filip er besti þjálfari tímabilsins þetta árið. Filip stýrði liði KA í ár og var markmið liðsins fyrir tímabil að vinna alla titla sem í boði voru. Þrátt fyrir að önnur lið hafi veitt þeim harða samkeppni þá aðalega HK í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn, þá náði KA markmiði sínu og vann alla þá titla sem í boði voru. 

Við óskum Filip innilega til hamingju með þessa nafnbót.

Aðrir sem fengu atkvæði: Piotr Kempisty, Afturelding, Ana Maria Vidal Bouza, Þróttur Nes.

Filip er þjálfari ársins