[sam_zone id=1]

Calais lýkur tímabilinu með sigri

Calais lék í gær sinn síðasta leik á tímabilinu þegar að liðið mætti Beauvais, en þessi lið voru í tveimur efstu sætum deildarinnar. Calais var þegar búið að tryggja sér sigur í deildinni en Beauvais þurfti eitt stig til að tryggja sér annað sætið.

Calais byrjaði leikinn betur og voru ákveðnari í byrjun leiks. Þeir náðu fínu forskoti um miðja hrinu 17-13 og voru að spila mjög vel. Þá kom þó bakslag í leik liðsins og náði Beauvais að jafna leikinn 18-18. Calais gáfust þó ekki upp og settu í næsta gír og kláruðu hrinuna 25-21.

Þar sem Calais hafði nú þegar unnið deildina eins og áður kom fram hafði þjálfari liðsins ákveðið að leyfa öllum leikmönnum liðsins að spila og láta nokkra af yngri leikmönnum liðsins fá sénsinn. Leikur liðsins riðlaðist því aðeins við allar þessar skiptingar og nýtti Beauvais sér það og vann næstu hrinu 20-25.
Beauvais voru komnir með blóð á tennurnar og þeir héldu áfram að þjarma að heimamönnum sem áttu í mestu vandræðum með móttökuna hjá sér og gekk þar með einnig illa að skila sóknunum. Beauvais vann einnig þriðju hrinuna 25-22.

Calais voru því komnir með bakið upp við vegg og þurftu á sigri að halda í næstu hrinu til að halda sér á lífi. Ungu leikmenn Calais voru orðnir heitir og komnir í gang og Calais hreinlega valtaði yfir Beauvais í þessari hrinu og unnu sannfærandi sigur 25-13.

Það þurfti því að grípa til oddahrinu, þar voru það Calais sem tóku með sér meðbyrinn úr annari hrinunni og héldu áfram að spila vel. Það munaði þó aldrei miklu á liðunum en Calais hélt Beauvais þó alltaf í þægilegri fjarlægð í oddahrinunni og vann hana 15-10 og þar með leikinn 3-2.

Calais endar því tímabilið á sigri og spilar því deild ofar á næsta tímabili. Þessu tímabili er þó ekki lokið því Calais leikur um næstu helgi gegn sigurvegurum hinna riðlanna í þessari deild til að finna út hverjir eru besta liðið í N2 deildinni.

Hafsteinn Valdimarsson lék allan leikinn í dag og stóð sig vel í leiknum.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.