[sam_zone id=1]

Besti ungi leikmaður tímabilsins í Mizuno-deild karla

Eins og á síðasta ári höfum við hjá blakfréttum ákveðið að gera upp tímabilið hér á síðunni með því að velja lið og leikmenn ársins í efstu deild karla og kvenna. Það eru fréttaritarar síðunnar sem sjá um valið og ætlum við hér á næstu dögum að velja bestu leikmenn deildanna ásamt því að velja lið ársins.

Nú er komið að því að birta hver varð fyrir valinu sem besti ungi leikmaður deildarinnar. Valið fór þannig fram að hver fréttaritari valdi topp 3 fyrir sig og fengu leikmenn stig eftir því. Við munum síðan birta okkar topp 3 hér að neðan.

3. sæti: Birkir Freyr Elvarsson, KA
Birkir Freyr var að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokk KA í vetur og stóð hann svo sannarlega fyrir sínu. Hann leysti Arnar Má af í stöðu frelsingja þegar leið á tímabilið og stóð sig frábærlega, en hann var með 69% móttöku í vetur sem var það fimmta besta í deildinni.

2. sæti Galdur Máni Davíðsson, Þróttur Nes.
Galdur Máni átti mjög gott tímabil með Þrótti Nes í vetur og var hann lykilmaður í ungu liði þeirra. Hann skoraði 136 stig af miðjunni í vetur og var fjórði stigahæstur í hávörn með 35 hávarnir.

1. sæti Elvar Örn Halldórsson, HK
Það munaði ekki miklu á efstu tveimur sætunum en Elvar Örn er besti ungi leikmaður tímabilsins þetta árið. Elvar var eins og Birkir að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og þrátt fyrir að hafa verið á bekknum til að byrja með náði hann að brjóta sér leið inn í gríðarsterkt lið HK þegar leið á tímabilið og var hann orðin fastamaður í byrjunarliðinu í lok tímabils.

Við óskum Elvari innilega til hamingju með þessa nafnbót.

Aðrir sem fengu atkvæði:
Hilmir Berg Halldórsson, Afturelding, Hermann Hlynsson, HK, Börkur Marinósson, Þróttur Nes.

Mynd frá A & R Photos.
Elvar Örn besti ungi leikmaður ársins.