[sam_zone id=1]

Lið ársins í Mizuno-deild kvenna

Eins og á síðasta ári höfum við hjá blakfréttum ákveðið að gera upp tímabilið hér á síðunni með því að velja lið og leikmenn ársins í efstu deild karla og kvenna. Það eru fréttaritarar síðunnar sem sjá um valið og ætlum við hér á næstu dögum að velja bestu leikmenn deildanna ásamt því að velja lið ársins.

Við byrjum á því að birta lið ársins í Mizuno-deild kvenna en valið fór þannig fram að hver fréttaritari valdi sitt lið og þeir leikmenn sem fengu flest atkvæði í hverri stöðu skipa lið ársins.

Lið ársins:

Uppspilari: Luz Medina, KA
Kom inn í lið KA á miðju tímabili og hefur verið algjörlega frábær síðan þá. Hún fékk fullt hús stiga en það voru allir á því máli að hún væri besti uppspilari tímabilsins. Hún á mikin þátt í því að KA-stúlkur unnu alla titla tímabilsins og var meðal annars valin besti leikmaður bikarúrslitanna.

Kanntur: Elísabet Einarsdóttir, HK
Kom inn í lið HK fyrir tímabilið eftir að hafa leikið í Sviss árið áður. Hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar og var hún stigahæst í vetur með 435 stig. Hún fékk einnig fullt hús stiga í valinu.

Kanntur: Rut Gomez, Völsungur
Rut kom eins og stormsveipur inn í deildina og var lykilmaður í liði Völsungs sem átti mjög gott tímabil í ár. Liðið fór í undanúrslit bæði í Íslandsmótinu og bikarnum og átti hún mikin þátt í að koma liðinu þangað.

Miðja: Hanna María Friðriksdóttir, HK
Hannar María hefur verið einn besti miðjumaður íslensku deildarinnar síðustu ár og var hún m.a. með næstflestar hávarnir í ár. Hún hefur einnig verið lykilmaður í liði HK og saknaði liðið hennar mikið þegar hún meiddist í miðri úrslitakeppni.

Miðja: Birna Baldursdóttir, KA
Kom aftur inn í lið KA í vetur eftir smá pásu og spilaði hún frábærlega með liðinu í vetur þar sem reynsla hennar reyndist gulls í gildi fyrir KA liðið. Hún toppaði síðan veturinn með því að tryggja KA Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli.

Díó: Paula Del Olmo Gomez, KA
Einn mikilvægasti leikmaður KA í vetur bæði í vörn og sókn, en Paula er gríðalega góður alhliða leikmaður. Hún var þriðji stigahæsti leikmaðurinn í vetur með 329 stig og lykilhlekkur í meistaraliði KA. Hún hefur einnig unnið 6 titla á síðustu tveimur árum sínum á Íslandi þar sem hún vann einnig þrefalt í fyrra með Þrótti Nes.

Frelsingi: Valdís Kapitola Þorvarðardóttir, Þróttur Nes.
Valdís er enn ung að árum en hún átti mjög gott tímabil með Þrótti Nes í ár. Hún stýrði móttöku liðsins af stakri snilld og átti í heildina mjög gott ár.

Aðrir leikmenn sem fengu atkvæði:
Kristina Apostolova, Afturelding, Særún Birta Eiríksdóttir, Þróttur Nes. Helena Kristín Gunnarsdóttir, KA, Arnrún Eik Guðmundsdóttir, KA, Hulda Elma Eysteinsdóttir, KA, Erla Rán Eiríksdóttir Álftanes, Gígja Guðnadóttir, KA, Joanna Kolec Szewczyk, Álftanes.