[sam_zone id=1]

Lið ársins í Mizuno-deild karla

Eins og á síðasta ári höfum við hjá blakfréttum ákveðið að gera upp tímabilið hér á síðunni með því að velja lið og leikmenn ársins í efstu deild karla og kvenna. Það eru fréttaritarar síðunnar sem sjá um valið og ætlum við hér á næstu dögum að velja bestu leikmenn deildanna ásamt því að velja lið ársins.

Nú er komið að því að birta lið ársins í Mizuno-deild karla en valið fór þannig fram að hver fréttaritari valdi sitt lið og þeir leikmenn sem fengu flest atkvæði í hverri stöðu skipa lið ársins.

Lið ársins:

Uppspilari: Filip Szewczyk, KA
Hefur verið einn besti uppspilari landsins síðastliðinn 10 ár. Þrátt fyrir að verða 41 árs á árinu virðist hann bara verða betri með aldrinum. Stjórnaði spili KA manna frábærlega í vetur og var ein helsta ástæða þess að liðið vann þrefalt í ár.

Kanntur: Theódór Óskar Þorvaldsson, HK
Kom inn í lið HK fyrir tímabilið eftir að hafa leikið í Noregi árið áður. Hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar og var hann næststigahæstur í vetur með 333 stig. Hann var eini leikmaðurinn sem fékk fullt hús stiga í valinu.

Kanntur: Stefano Nassini Hidalgo, KA
Kom til KA fyrir tímabilið og hefur smellpassað inn í liðið. Hann er fjórði stigahæsti leikmaður deildarinnar með 291 stig. Hann hefur einnig verið með mjög öflugar uppgjafir í vetur og hefur hann skorað flesta ása í deildinni eða 42 talsins.

Miðja: Alexander Arnar Þórisson, KA
Hefur leikið ýmsar stöður á vellinum eftir að hann hóf blakferill sinn. Hann lék þó á miðjunni hjá KA í vetur og var hann þar á tímum óstöðvandi og náði hann mjög vel saman við Filip uppspilara liðsins.
Var einnig með flestar hávarnir í vetur eða 56 talsins.

Miðja: Jordan Darlington, Álftanes
Kom til Álftanes á miðju tímabili og lét strax til sín taka. Var hættulegasti sóknarmaður Álftanes eftir áramót og hjálpaði liðinu meðal annars að komast í úrslitaleik bikarkeppninnar.

Díó: Miguel Mateo Castrillo, KA
Einn mikilvægasti leikmaður KA í vetur bæði í vörn og sókn, en Mateo er gríðalega góður alhliða leikmaður. Hann var stigahæsti leikmaður deildarinnar í vetur með 420 stig og lykilhlekkur í meistaraliði KA. Einn besti leikmaður deildarinnar í ár og stóra ástæða þess að KA vann þrefalt í ár.

Frelsingi: Arnar Birkir Björnsson, HK
Arnar átti mjög gott ár með liði HK í vetur. Hann var mjög stöðugur í móttöku og sýndi oft á tíðum frábær tilþrif í vörninni.

Aðrir leikmenn sem fengu atkvæði:
Lúðvík Már Matthíasson, HK, Mason Casner, KA, Radoslaw Rybak, Afturelding, Ragnar Ingi Axelsson, Álftanes, Piotr Kempisty, Afturelding.