[sam_zone id=1]

Marienlyst fengu bronsið

Ævarr Freyr Birgisson og félagar í Boldklubben Marienlyst léku í gær sinn annan leik gegn Middelfart VK í bronseinvíginu í Danmörku. Þeir unnu fyrri leikinn á heimavelli, 3-1, og gátu því tryggt sér bronsið með sigri í gær.

Liðin fylgdust að í upphafi fyrstu hrinunnar þar til í stöðunni 9-10 fyrir Marienlyst. Marienlyst skoruðu þá níu af næstu tíu stigum og komust 18-11 yfir og unnu hrinuna að lokum 25-19.

Aftur fylgdust liðin að í upphafi annarrar hrinunnar og alveg þar til um hana miðja. Middelfart komu Marienlyst þá í vandræði með sterkum uppgjöfum og gerðu Marienlyst sömuleiðis mörg sóknarmistök. Middelfart unnu hrinuna 21-25 og jöfnuðu leikinn.

Middelfart hófu þriðju hrinuna líkt og þeir enduðu þá aðra og skoruðu fyrstu þrjú stigin. Marienlyst voru hins vegar ekki lengi að jafna og að lokum komast yfir. Þeir héldu forystunni til loka hrinunnar og unnu hana 25-22.

Middelfart voru sterkari í upphafi fjórðu hrinunnar og leiddu með nokkrum stigum þar til rétt fyrir miðja hrinu. Marienlyst voru hins vegar ákveðnari það sem eftir lifði hrinu og unnu hana 25-20 og leikinn þar með 3-1.

Marienlyst léku með tvo frelsingja í leiknum í gær og sá Ævarr um vörnina á meðan hinn frelsinginn sá um móttökuna.