[sam_zone id=1]

EVA nældu í bronsið eftir sigur í oddaleik

Unnur Árnadóttir og liðsfélagar hennar í Elite Volley Aarhus (EVA) léku í dag sinn síðasta leik á tímabilinu þegar þær tóku á móti Team Køge Volley í oddaleik um bronsið í Danmörku.

EVA hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fimm stigin. Þær juku forskot sitt eftir því sem leið á hrinuna og unnu hana með miklum yfirburðum, 25-12.

Køge vöknuðu aðeins til lífsins í upphafi annarrar hrinu en það entist ekki lengi. Þær leiddu 7-10 en EVA skoruðu þá sex stig í röð og komust 13-10 yfir. EVA gáfu Køge ekki marga möguleika á að komast aftur inn í hrinuna og unnu hana 25-16.

EVA héldu áfram að spila vel í upphafi þriðju hrinunnar og skoruðu þær fyrstu sjö stigin. Køge minnkuðu muninn töluvert en þær komust ekki nær en þrjú stig í stöðunni 20-17. EVA unnu þriðju hrinuna 25-19 og leikinn þar með 3-0.

Unnur kom ekki við sögu í leiknum í dag.

EVA unnu einvígið þar með 2-1 og nældu í bronsið til að ljúka tímabilinu.