[sam_zone id=1]

Er kappið að bera fegurðina ofurliði ?

Nú fer að líða undir lok Íslandsmótsins en úrslitakeppni karla og kvenna gæti klárast í vikunni.

Mikill hasar hefur verið í úrslitakeppninni í ár og öllu meiri hasar innan sem utan vallar karla meginn. Það geta allir verið því sammála að tilfinningar eru mikilvægur partur af leiknum og nauðsynlegt að leikmenn og þjálfarar fái að sýna tilfinningar, það gefur leiknum aukið líf og er oft það sem áhorfendur sækjast eftir.

Í undanförnum leikjum í úrslitakeppni karla hefur hinsvegar spennustigið verið mjög hátt og fyrir vikið hefur verið öllu meiri æsingur en við erum vön að venjast. Leikmenn og þjálfarar hafa látið mikið fyrir sér fara og nokkrir þeirra farið heldur yfir strikið.

Í leikjum HK og Aftureldingar í undanúrslitum karla fengu leikmenn og þjálfarar spjöld fyrir hegðun sína en í fyrsta leik liðanna kom hinsvegar upp atvik sem hefði þurft að taka harðar á en þar sýndi leikmaður HK hegðun sem ekki er ásættanleg. Ismar Hadziredzepovic leikmaður HK fékk þá gult spjald fyrir að gefa andstæðingi sínum fingurinn í miðjum leik en báðir aðilar höfðu átt í orðaskiptum megnið af leiknum. Engar athugasemdir voru gerðar á leikskýrslu að leik loknum.

Afturelding ákvað að kæra atvikið en þar voru menn ekki ánægðir með hegðun leikmanns HK sem og ákvörðun dómarans í því atviki og var ákveðið að kæra atvikið til aganefndar Blaksambandsins. Aganefndin tók atvikið fyrir og var því vísað frá, Blaksambandið nýtti hins vegar tækifærið og fordæmdi hegðun viðkomandi leikmanns og tók það fram að hegðun sem þessi væri óásættanleg.

Nú er í gangi einvígi á milli KA og HK um Íslandsmeistaratitilinn en HK leiðir einvígið sem stendur 2-1. Liðin mættust í tveimur leikjum fyrir norðan um helgina og má segja að hegðun ákveðinna aðila um helgina hafi ekki verið þeim og þeirra félögum til framdráttar.

Í fyrri leik liðanna fær spilandi þjálfari KA, Filip Szewczyk rautt spjald fyrir að trufla upphitun HK. Eins og fram kemur í athugasemd á leikskýrslu leiksins þá tók viðkomandi leikmaður um netið og lyfti því upp þegar Ismar Hadziredzepovic leikmaður HK var að smassa. Fyrir vikið urðu leikmenn og þjálfarar HK ósáttir með hegðun Filips en atvikið átti sér stað eftir að leikmenn beggja liða höfðu átt í orðaskiptum vegna óánægju beggja liða með upphitum hvors annars. Þjálfari KA var því sjálfkrafa kominn í eins leiks bann vegna þriggja rauðra spjalda á leiktímabilinu en KA ákvað að kæra atvikið til aganefndar Blaksambandsins. Aganefndin ákvað hinsvegar að vísa málinu frá og stóð með ákvörðun dómara leiksins.

Ekki var spennustigið minna fyrir þriðja leik liðanna síðasta laugardag en þar mættu KA til leiks án þjálfara síns og uppspilara Filip Szewczyk sem tók út leikbann. Davíð Búi Halldórsson var mættur í lið KA og fyllti hann í skarð Filips. Það má með sanni segja að keppnisskap leikmanna og þjálfara beggja liða hafi á tímapunkti borið fegurðina ofurliði en langt er síðan jafn mikill hasar og læti hafa sést í blakleik hér á landi. Orðaskipti manna í leiknum eru þeim ekki til framdráttar og er nokkuð ljóst að framkoma ákveðinna aðila í leiknum voru íþróttinni ekki til sóma.

Massimo Pistoia þjálfari HK fékk gult spjald fyrir að lýsa óánægju sinni gagnvart orðaskiptum andstæðings og þá fékk Ismar Hadziredzepovic leikmaður HK rautt spjald fyrir ógnandi hegðun uppi við net í miðri skorpu. Einhver handalögmál og orðaskipti urðu á milli manna þegar liðin skiptu um vallarhelming og nokkuð ljóst að ómögulegt hafi verið fyrir dómara leiksins að sjá allt sem á gekk á meðan leik stóð.

Atvik sem átti sér stað eftir lokastig leiksins er hins vegar atvik sem þarf að skoða betur en þar kemur þjálfari KA sem tók út leikbann í leiknum inná völl áður en leik er formlega lokið og ausar fúkyrðum yfir einn af línuvörðum leiksins. Umræddur línuvörður þótti taka nokkuð umdeilda ákvörðun undir lok leiks og samkvæmt textaskrifum sem viðkomandi línuvörður ritaði á skýrsluna þá gaf þjálfari KA viðkomandi línuverði fingurinn og ausaði svo yfir hann fúkyrðum sem hægt er að lesa af leikskýrslunni á vef blaksambandsins. Þarna er nokkuð ljóst að viðkomandi aðili fór langt yfir strikið og sýndi af sér hegðum sem er með öllu óásættanleg.

Í agareglum Blaksambandsins kemur skýrt fram að leikmaður eða þjálfari sem tekur út leikbann hefur ekki heimild til að koma inná leikvöllinn fyrr en dómarar hafa gengið til búningsherbergja.

“Þjálfari, aðrir starfsmenn liðs eða leikmaður sem tekur út leikbann og mætir á leikstað skal vera meðal áhorfenda frá og með þrjátíu mínútum fyrir leik og þar til dómarar ganga til búningsherbergja. Á því tímabili má viðkomandi ekki vera á leikvellinum, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við lið sitt. Verði dómarar leiks þar sem þjálfari eða starfsmaður liðs er í banni varir við óeðlileg samskipti við liðið, er þeim heimilt að vísa honum úr húsi til að framfylgja banninu. BLÍ skal sjá til þess að dómarar á leikjum séu meðvitaðir um leikbönn í tengslum við liðin sem mætt eru til leiks.”

Nú er spurning hvort atvikið verði tekið fyrir af aganefnd blaksambandsins en þarna er nokkuð ljóst að umræddur aðili braut þær reglur sem eru í gildi yfir aðila sem taka út leikbann og sýndi í leiðinni af sér hegðun sem er íþróttinni og hans félagi ekki til sóma.

Þegar öllu er hinsvegar á botninn hvolft er nokkuð ljóst að allir þeir sem koma að þessum leikjum þurfa að gera betur. Framkoman sem sést hefur í undanförnum leikjum er íþróttinni ekki til sóma og erum við að fara virkilega illa með það vörumerki sem úrslitakeppnin okkar á að vera. Að sjálfsögðu viljum við hafa tilfinningar en ógnandi hegðun og fúkyrði sem leikmenn og þjálfarar hafa sýnt af sér eru til háborinnar skammar.

Félögin þurfa að gera betur í sinni umgjörð og það er á ábyrgð félaganna að þeirra leikmenn og starfsmenn séu félaginu til sóma. Einnig er það ábyrgð félaganna að þátttakendur í leiknum, leikmenn, þjálfarar, dómarar og aðrir starfsmenn séu ekki í hættu á meðan á leik stendur.

Blaksambandið þarf svo að sýna ábyrgð í því að tryggja að þeirra færustu aðilar séu fengnir í þau verkefni sem tengjast leikjum í úrslitakeppninni. Einnig þarf Blaksambandið að tryggja að hegðun sem þessi sé ekki boðleg og þarf að taka á hegðun þeirra sem um ræðir.

Við vonumst eftir frábærri skemmtun í þeim leikjum sem eftir eru af úrslitakeppninni og vonum að menn láti ekki kappið bera sig ofurliði!