[sam_zone id=1]

HK stöðvar sigurgöngu KA

HK var rétt í þessu að sigra KA 1-3 í þriðja leik liðanna í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitlinn. Með sigri í dag hefði KA geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en HK stúlkur nýttu leikgleðina og náðu að framlengja úrslitakeppnina.

KA byrjaði leikinn vel og þurfti HK að elta alla fyrstu hrinuna. HK náði ekki að jafna fyrr en í stöðunni 21-21 en þá fer Hjördís Eiríksdóttir, leikmaður HK, í annan gír og skorar næstu fjögur stig fyrir HK á meðan KA skorar bara tvö. HK tók því fyrstu hrinu 23-25.

Önnur hrina var kaflaskipt allan tímann. KA komst í góða stöðu í 6-1 en HK svaraði í sömu mynt og allt í einu var staðan orðin 6-9 fyrir HK. KA jafnaði síðan stöðuna í 11-11 en þá fékk HK fjögur stig í röð eftir sterkar sóknir frá Elísabetu Einarsdóttur og staðan orðin 11-15 fyrir HK. KA jafnaði aftur í stöðunni 16-16 og enn var allt jafnt í 18-18. KA stúlkur ætluðu ekki að missa hrinuna frá sér á lokametrunum eins og þá síðustu svo þær gáfu rækilega í og kláruðu hrinuna 25-21.

HK byrjaði þriðju hrinu af miklum krafti og komust í 0-5 eftir öflugar sóknir frá Matthildi og Hjördísi. KA skoraði síðan einnig fimm stig í röð og jafnaði í stöðunni 5-5. Liðin skiptaust á að vera yfir í hrinunni og ennþá var allt jafnt í stöðunni 18-18. HK fékk þá þrjú stig í röð og og náðu þær að halda forskotinu út hrinuna. Edda Björk, leikmaður HK, kláraði þriðju hrinuna 22-25 með laumu beint í gólf hjá KA.

Fjórða hrina fór jafnt af stað og jafnt var í stöðunni 5-5. KA átti þá í vandræðum með sterkar uppgjafir frá leikmönnum HK og HK stúlkur komust í þægilega stöðu í 8-13. KA jafnaði í 13-13 eftir góðan sóknarleik frá Paulu og Birnu Baldursdóttur en þá fór Elísabet Einarsdóttir í uppgjöf fyrir HK og kom hún HK-ingum aftur í þægilega stöðu í 13-17. KA stúlkur áttu þá góðan kafla og jöfnuðu stöðuna í 19-19 eftir nokkur mistök hjá HK og góðar sóknir frá fyrirliða KA. HK stúlkur voru ákveðnar í lok hrinu og með sterkum uppgjöfum og góðum sóknarleik náðu þær að klára hrinuna 21-25 og þar með leikinn 1-3.

Stigahæstar í leiknum voru HK-ingarnir Elísabet Einarsdóttir með 20 stig og Hjördís Eiríksdóttir með 19 stig. Stigahæst í liði KA var Paula Del Olmo Gomez með 15 stig.

Staðan í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn er nú 2-1 fyrir KA en vinna þarf þrjá leiki til að vinna titilinn. Næsti leikur liðanna verður miðvikudaginn 17. apríl í Fagralundi. Við hjá Blakfréttir.is hvetjum alla til þess að fjölmenna í Fagralund og búa til alvöru stemningu.