[sam_zone id=1]

EVA áfram á lífi í baráttunni um bronsið

Unnur Árnadóttir og liðsfélagar hennar í Elite Volley Aarhus (EVA) mættu Team Køge Volley í dag í öðrum leik liðanna í baráttunni um bronsið í Danmörku. Køge unnu fyrri leikinn 2-3 og með sigri í dag hefðu þær tekið bronsið.

EVA mættu töluvert ákveðnari til leiks í dag en þær gerðu í fyrri leik liðanna og voru þær ekki lengi að ná góðri forystu. EVA unnu fyrstu hrinuna mjög sannfærandi, 25-16.

Køge hófu aðra hrinuna hins vegar mikið betur en þá fyrstu og skoruðu þær fyrstu fimm stigin. EVA svöruðu því um leið og jöfnuðu í 5-5. Køge náðu forystunni aftur og leiddu 13-17 en EVA tókst aftur að jafna. EVA unnu hrinuna með minnsta mun, 25-23.

Líkt og í fyrstu hrinunni voru EVA með forystuna alveg frá upphafi þriðju hrinunnar. Køge tókst að minnka muninn örlítið en það var um seinan þar sem EVA skoruðu fimm stig í röð í stöðunni 20-15 og unnu hrinuna 25-15 og leikinn þar með 3-0.

Unnur kom ekki við sögu í leiknum.

EVA jafna þar með bronseinvígið og mun næsti leikur skera úr um hvort liðið fær verðlaunin. Sá leikur fer fram þriðjudaginn næstkomandi, 16. apríl, og er það einnig síðasti leikur EVA á tímabilinu.