[sam_zone id=1]

Calais áfram á sigurbraut

Calais mætti í dag liði Sartrouville í frönsku N2 deildinni. Calais hafði fyrir leikinn unnið síðustu 10 leiki sína og þeir stefndu á að bæta ellefta sigrinum við í dag.

Leikurinn byrjaði þó ekki vel fyrir heimamenn í Calais þar sem Sartrouville skoruðu fyrstu 7 stig leiksins og leiddu síðan 8-1 í fyrsta tæknihléi. Calais byrjaði þó að spila betur og náði að minnka muninn þegar leið á hrinuna. Sartrouville voru þó að spila mjög vel og voru að verja mikið af boltum frá Calais. Leikurinn var þó jafn í stöðunni 21-21 og allt gat gerst. Sartrouville skoruðu þá næstu þrjú stigin og komust yfir 24-21. Calais gafst þó ekki upp og með góðum uppgjöfum og sterkri hávörn náði Calais að skora fimm stig í röð og vinna hrinuna 26-24.

Calais voru komnir í gang í annari hrinu og einnig búnir að lesa sóknarleik Sartrouville betur. Calais var með yfirhöndina allan tímann í þessari hrinu og unnu hana örugglega 25-12.
Þriðja hrinan var síðan svipuð og sú önnur þar sem Calais höfðu stjórnina allan tímann. Þeir náðu góðu forskoti í byrjun hrinunnar sem þeir gáfu aldrei eftir og unnu einnig hrinu þrjú 25-16 og þar með leikinn 3-0.

Calais er því komið í mjög góða stöðu í deildinni en liðið á tvo leiki eftir og þarf að vinna annaðhvorn þeirra til að tryggja sig upp um deild.

Hafsteinn var eins og áður í byrjunarliði Calais og lék allan leikinn. Hann átti í vandræðum í byrjun leiks eins og liðsfélagar sínir en vann sig vel inn í leikinn og var mjög sterkur í hávörninni og skilaði sínum sóknum.

Nánari úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.