[sam_zone id=1]

KA einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum eftir 3-1 sigur á HK

KA og HK mættust í dag í öðrum leik í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrr í vikunni vann KA fyrsta leik liðanna 0-3 og með sigrinum í dag þurfa KA stúlkur bara einn sigur í viðbót til þess að lyfta Íslandsmeistaratitlinum á morgun.

Fyrsta hrina var jöfn og spennandi og voru bæði lið að sýna góða takta í vörn og sókn. Liðin skiptust á að vera með yfirhöndina í hrinunni. HK var yfir í stöðunni 19-20 en þá settu KA stúlkur í lás og skoruðu sex stig í röð og unnu þar með hrinuna 25-20. Paula Del Olmo Gomez var atkvæðamest í hrinunni með 7 stig fyrir heimastúlkur.

HK byrjaði aðra hrinu af miklum krafti og voru yfir í stöðunni 4-8 þegar Miguel Mateo Castrillo, þjálfari KA, tók leikhlé. KA gáfu í eftir það og jöfnuðu þær stöðuna í 14-14. KA náðu fljótlega yfirhöndinni í hrinunni og fyrirliði KA, Hulda Elma Eysteinsdóttir, kláraði hrinuna með laumu beint í gólf hjá HK. Lokastaða í hrinunni 25-22.

HK áttu í miklum vandræðum með sterkar uppgjafir frá KA í byrjun þriðju hrinu og voru KA stúlkur búnar að skora fimm ása í stöðunni 14-6. Allt leit út fyrir að KA færi með stórsigur í hrinunni þegar staðan var 20-13 en þá settu HK stúlkur í annan gír og skoruðu sjö stig í röð og jöfnuðu stöðuna í 20-20. HK hélt áfram í sama gír og Hjördís Eiríksdóttir káraði hrinuna 21-25 með hörkusmassi.

Lið KA leist ekkert á blikuna eftir tap í þriðju hrinu og byrjuðu þær fjórðu hrinu af fullum krafti og komust í 7-1. KA stúlkur héldu áfram að auka forskotið og komust í stöðuna 20-8. Undarlegt var að Emil Gunnarsson, þjálfari HK, tók ekkert leikhlé í hrinunni þrátt fyrir að KA væri að valta yfir KA. Gígja Guðnadóttir kláraði hrinuna fyrir KA með laumu beint í gólf. Staðan í leikslok var 25-13, 3-1.

Stigahæst í leiknum var Elísabet Einarsdóttir, leikmaður HK, með 19 stig, þar af 16 úr sókn, 1 úr hávörn og 2 beint úr uppgjöf. Stigahæst í liði KA var Paula Del Olmo Gomez, leikmaður KA, með 18 stig, þar af 14 úr sókn, 1 úr hávörn og 3 beint úr uppgjöf.

Liðin mætast aftur á morgun kl 14:00 í KA heimilinu þegar KA getur fullkomnað þrennuna og orðið deildar-, bikar- og Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins.